14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

19. mál, verðtollur

Framsögum. meiri hl. (Pétur Jónsson):

Eg hefi athugað br.till. á þgskj. 241, og get eg ekki felt mig við tvær hinar síðari. Eg skal ekki segja hvort þessi 3%, sem nefndin hefir stungið upp á að gjaldið verði, muni hrökkva eða vera sanngjarnt í samanburði við þau innheimtulaun, sem nú gerast, en eg verð þó að álíta þau sæmileg, og skil ekki hví þau geta ekki verið það eins fyrir því, hvort sem lögreglustjórinn hefir fyrir sig löggiltan umboðsmann, eða ekki. En eftir þessum till. fer út á það, að umboðsmennirnir verða að fá sérstök laun, þrátt fyrir það, þótt innheimtulaun lögreglustjóra hafi verið hækkað úr 2% upp í 3%. Þetta get eg ekki felt mig við. Og að þessir umboðsmenn fái ekki annað fyrir starfa sinn en l%, en lögreglustjórar stingi hinu í vasa sinn, er bersýnilega ranglátt. Sú fyrirhöfn sem eykst á, fram yfir það sem nú er, kemur nær eingöngu niður á umboðsmönnunum einum, og það er ekki erfiðara fyrir lögreglustjóra að hafa eftirlit með og endurskoðun á þessu, en nú er. Eg get ekki séð betur, en að þetta sé ljóst, þar sem umboðsmennirnir framkvæma starfið og lögreglustjóri verður sjálfur í fæstum tilfellum viðstaddur. Eg hugsa nú reyndar að það megi fá einhverja til þess að framkvæma þessi umboðsstörf, þótt það sé ranglátt að þeir fái svo lítinn hluta af þessum háu launum, því að menn eru löngum lítilþægir á aurana, en þá gerir það líka enginn maður nema með hangandi hendi. Samvizkusamir menn taka það ekki að sér. Þetta er nú það sem eg hefi á móti þessum brt. Svo vildi eg, áður en málið fer úr deildinni, geta þess, að eins og áður hefir verið á minst, greindi mig á um það við háttv. meðnefndarmenn mína um það, að eg vildi miða við verð vörunnar, þegar hún er komin hingað á höfn. Eg varð nú í minni hluta með þetta og kaupmannaráðið réð líka til hins gagnstæða, og hefi eg þá ekki sett mig upp á móti þessu, eða komið með br.till. Nú er annað frv. á ferðinni, þar sem gert er ráð fyrir því, sem eg vildi miða við, og þess vegna hefi eg þann fyrirvara, að eg verð með því ákvæði þess, ef það gengur fram, þótt eg hafi ekki viljað gera glundroða í þessu frv. með br.till.

Enn vildi eg víkja dálítið að umræðunum um skattamál, bæði hér í deildunum og utan þings. Alstaðar er fárast um það, hve hagur landssjóðs sé bágur, og það er ekki ofsögum sagt af því, að hann þarf að bæta, bæði með tilliti til vínfangatollsins, sem nú hverfur og enda hvort sem er. En mér blöskrar alt þetta vandræða tal. Allar uppástungur, sem fram hafa komið til þess að bæta fjárhaginn, hafa fengið þann dóm, að þær séu óhafandi. Yfirgnæfandi meiri hl. virðist vera á móti þeim, hverri um sig, að minsta kosti í orði kveðnu. Eins og kunnugt er hitta menn á það, að tolla munaðarvörur, og því hefir verið haldið áfram og þeir tollar síauknir, þangað til komið er að takmarkinu. Þá eru beinir skattar. Jú, bæði eg og margir aðrir mundum vilja þá, en þeir eru lágir, og afla því ekki í landinu sérlega mikilla tekna. Að færa skattamálin í líkt horf og annarstaðar gerist meðal mentaþjóðanna hefir stjórnin aldrei treyst sér til, og tillögur um það hafa átt formælendur svo fáa, að enginn hefir einu sinni þorað að bera þær fram á þinginu, svo langt er frá því, að þær hafi haft byr. Svo kom farmgjaldið í fyrra, og flestir voru á því, að það væri hreint óhafandi, enda hygg eg fullsannað að það fullnægi ekki neinum þeim kröfum, sem gerðar verða til gjalds, sem á að vera aðalstoð landssjóðs. Og svo er þessi verðtollur. — Jú, hann fekk 14 atkv. hér í deildinni síðast og eg vona að hann fái það aftur nú, en með samvizkunnar mótmælum held eg að það sé hjá mörgum, og það sem aðallega heldur verndarhendi yfir honum, hygg eg sé það, að honum er ekki ætlað að vera nema rétt til bráðabirgða. Svo er nú á ferðinni kolatollur í efri deild, og held eg að flestum þyki hann afskaplega ósanngjarn. Reyndar legðist hann nokkuð á útlendinga, en svo auk þess nær eingöngu á fáa útgerðarmenn, og undarlegt mætti það heita, ef kolin ein ættu að geta hjálpað, og það hygg eg að varla komi heim og saman við nokkra skatta „theóríu“ í öllum heimi.

Þá kem eg enn að einu, og það er einkasala. Allir eru víst sammála um það, að landið sjálft sé ekki fært um að taka hana að sér, og það gerir það að verkum, að flestir eru mótfallnir þeirri leið, því að ef marka má það sem menn hafa látið til sín heyra í blöðum og annars staðar um þær till., sem fram hafa komið í þessa átt, þá telja menn alment að það, að selja einkasöluleyfi á leigu, mundi verða hér um bil sama sem einokunin gamla. Þetta hefir fengið lítinn byr, sjálfsagt miklu minni en rétt væri, en það gerir þó það að verkum, að ekki getur komið til mála að fara þá leið. — Nú bið eg menn að athuga það, hve margar leiðir enn muni vera ótaldar. Allar — nema sú, sem þegar hefir verið farin til fulls — hafa verið taldar ófærar, nema ef þessi, sem nú er hér til umræðu, kynni nú að geta flotið til Ed., og það er undarlegt, ef engin af þeim leiðum sem veröldin notar, og minst hefir verið á, ætti að vera brúkleg. Alt á að vera ómögulegt, eða neyðarúrræði, og eg skil ekki í því, að mönnum skuli ekki þykja skömm að því hreint og beint, að láta alt af þennan hljóm klingja. Eitthvað af þessu hlýtur að vera þvogl, og einhverja leið verður að fara.