14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

19. mál, verðtollur

Matthías Ólafsson:

Eg skal ekki fara langt út í fjárhag landsins alment, hversu bágur hann sé. En flestum kemur saman um að hann sé mjög lélegur og eg hefi fyrir satt að ekki sé til fé til að standast allra nauðsynlegustu útgjöldin. Enda var það í þingbyrjun nú talið eitt aðalstarf þessa þings að ráða bót á fjárhagsvandræðunum. Nú hefir á undanförnum árum hver milliþinganefndin eftir aðra verið skipuð til að koma með tillögur um það hvernig auka skuli tekjur landssjóðs, en þær hafa engu komið fram, þjóðin hefir ekki viljað fallast á uppástungur þeirra; og þó hafa í þeim setið okkar beztu menn. Þetta hlýtur því að enda með því að eitthvað örþrifaráð verður tekið, enda eru bæði þessi frv., sem hér er milli að velja, hreinustu örþrifaráð. Samt sem áður verð eg að telja verðtollinn margfalt betri en farmtollinn. Að vísu er sá galli á honum, að hann hækkar því hærra sem verð er á vöru í útlöndum, en það er líka eini gallinn á honum, að því er mér virðist. Mér virðist ekki mikið gerandi úr erfiðleikunum á að innheimta hann. Það mundi verða fremur auðvelt og ekki miklu erfiðara en tollinnheimta er nú. Tollheimtumennirnir þurfa ekki annað en líta á þær upphæðir sem á reikningunum standa og reikna tollinn út eftir þeim. Ef til vill væri haganlegra að reikna tollinn af brúttóverði vörunnar (cif), það er að segja og innkaupsverði að meðtöldum kostnaði og fragt, því þá þarf ekki að líta nema á eina upphæð, en þá yrði líka að lækka tollinn, því að það munar mikið um kostnað og fragt, en með því móti yrði hins vegar eftirlitið og innheimtan auðveldara. Eg get ekki skoðað það fé tapað landsmönnum eða á glæ kastað sem í landssjóð fer, jafn vel þó það sé tekið frá fátæku fólki. Því að með því fé á landssjóður að hlaupa undir bagga með mönnum þegar þess þarf og styðja atvinnuvegi landsmanna.

Ekki álít eg heldur mikið gerandi úr þeirri mótbáru að erfitt sé að heimta inn toll af póstsendingum. Bæði er það að þeim fylgja svo mörg skilríki sem styðjast má við, og auk þess er mest af því sem sent er með pósti, sent með eftirkröfu, er sjá má verð vörunnar af. Mér blandast ekki hugur um það, að verðtollinn beri að taka fram yfir þungatollinn; eg þykist geta dæmt um það af margra ára reynslu við verzlunarstörf, að hann muni koma miklu réttlátar niður. Tollheimta hefir undanfarið um alt land verið eins og hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) lýsti henni, og eg hygg að ekki hafi verið mikil vanhöld á tolli hingað til, og býst eg við að sama muni verða reynslan framvegis. Það getur hugsast að einhverir, einkum þeir sem eru bæði sendarar í útlöndum og móttökumenn hér, muni reyna ýmsar brellur til að draga vörur undan tolli, en hins ber og að gæta að þeir eiga á hættu að fara í hegningarhúsið ef slíkt sannast um þá, og munu þeir, sem einhvers meta mannorð sitt, kynoka sér við að leggja í þá hættu. Eg held því að ekki sé ástæða til að óttast mikil vanhöld á þessum verðtolli. Auk þess er ekki ætlast til að þessi tollur standi nema um stundarsakir, til reynslu fyrst um sinn. Af öllum þessum ástæðum mun eg greiða atkvæði með verðtollsfrv., en falli það, þá mun eg þó greiða farmgjaldsfrumv. atkv. mitt. Því að það mundi eg álíta hörmulegt ef við færum nú aftur heim í sveitir án þess að hafa samið og samþykt neitt skattafrv., eftir að við höfum komið saman hér með þeim aðalásetningi að ráða bót á fjárhag landsins.