14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

19. mál, verðtollur

Framsm. minni hlutans (Björn Kristjánsson):

Vegna þess að háttv. þm. Rvk. (L. H. B.) var svo kurteis að lesa upp áritunarbréf sem eg lánaði honum, þá vil eg leyfa mér að lesa það upp á íslenzku:

„Til athugunar.

1. Það er í öllu falli sök þess er sendir, að kynna sér nákvæmlega hvort hinir sendu hlutir megi innflytjast á viðtökulandinu og hvort þeir megi láta þá ganga til millimanna. Það hvíla á sendandanum allar afleiðingar af því ef tollvottorðið er ónákvœm lega eða rangt til búið.

2. Tollvottorðið verður að vera í tvennu lagi fyrir pakka og kassa þegar er tiltekið og má skrifa þau á grœnan pappír ef verð er ekki ákveðið á pökkunum.“

Allir sjá hvað meint er með þessu. Ríkið vill enga ábyrgð hafa á því, hvað sendandi gefur upp að sé í pökkunum. Sendandi verður sjálfur að bera ábyrgð á því sem hann segir að sé í þeim. Og þar sem ráð er gert fyrir því, að ekkert verð sé gefið upp, þá getur vottorðið ekki verið til leiðbeiningar tollheimtumönnum. Svo vil eg bera það undir háttv. þingmenn, hvort ekki sé rétt þýtt.