14.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

19. mál, verðtollur

Lárus H. Bjarnason:

Má eg strax fá að raða ofan í háttv. síðasta ræðumann þessum misskilningi. Hann segir að tollurinn verði ekki innheimtur eftir þeim skírteinum er fylgja póstsendingum, af því að þar sé ekki tiltekið factúruverð. Lesi sá góði mann 3. gr. frv. 2. málsgr. Þar stendur svo: Nú kemur kaupreikningur ekki fram, enda viðtakanda ekki sök á því gefandi og metur tollheimtumaður þá vöruna til verðs, nema viðtakandi æski mats á venjulegan hátt. (Jóhannes Jóhannesson: Er þetta ekki fyrirhöfn?) Nei, því að matið á póstsendingunum yrði auðvitað bygt á verðhæð þeirri, sem stæði á fylgibréfinu. Það var annars ekki eg sem kallaði verðið á fylgiskj. vátryggingarverð heldur hæstv. ráðh. (H. H.), en það má vafalaust til sannsvegar færa, því að vátryggingarverðið jafngildir a. m. k. oftast um kaupverðinu. (Björn Kristjánsson: Nei) Það getur skeð að hv. þm. G. K. (B. K.) fari svo sérstaklega að, að vátryggja eignir sínar fyrir lægra verð en þær kosta. (Björn Kristjánsson: Vátryggingarverðið er oftast 10% hærra). Því betra fyrir landssjóðinn, ekki skaðast hann á því. (Jóhannes Jóhannesson: Viðtakandi er ekki skyldur til að greiða það). Hann er skyldur til að greiða matsverðið, þó að það væri bygt á hinu uppgefna verði, en gæti fengið endurgreiðslu ef hann sannaði að það hefði orðið of hátt.