27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

24. mál, stofnun Landsbanka

Björn Kristjánsson:

Hæstv. ráðherra var ekki ljóst, hvaða gagn útbú erlendis gæti gert. Eg gat þess þó áður og flutningsmaður frv. (J. Ól.), að bankinn gæti haft gagn af heimildinni, þó hann ekki notaði hana. Vitaskuld mundi bankastjórnin enga slíka skrifstofu setja upp ytra, nema bankanum yrði hagur að. Og treysti þingið ekki bankastjórninni til þess að sjá um þetta og annað bankanum viðvíkjandi, þá er vitanlega ráðið það, að styrkja bankastjórnina svo, að henni þyki treystandi.

Hæstv. ráðherra sagði, að innheimta kæmi að mestu beint til bankanna hér, en ekki gegnum aðra banka. Hann mun hafa alt aðra reynslu en eg. Landsbankinn hefir sama umboðsmann sem hann hefir jafnan haft áður og frá honum koma mestar innheimturnar, enda nýtur hann hálfs arðsins af innheimtunni.

Eg tel till. holla og rétta og enga ástæðu til þess að leggja heimildina á vald stjórnarinnar. Því meiri afskifti sem stjórnin, og jafnvel þingið líka, hefir af bankanum, því verr álít eg farið, enda hefir stjórnarráðið eðlilega enga þekkingu á bankamálum á við mig.

Út af orðum hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) skal eg geta þess, að það er misskilningur hjá hv. þm., að þessi skrifstofa sé ætluð til þess að veita lán. Tilgangurinn er sá, að hún útvegi starfsfé til handa Landsbankanum, selji verðbréf o. s. frv.

Eg vona, að allir þeir, sem unna hag Landsbankans, sýni það með því að samþykkja þessa tillögu.

Að öðru leyti skal eg geta þess, að mér stendur öldungis á sama um það, hvort heimild er veitt til þess að stofna útbú með því orðalagi, að það sé „á Austfjörðum“ eða „í Suður-Múlasýslu“; aðalatriðið er þetta, að bankastjórninni sé veitt heimild til að setja útbúið á þeim stað, sem hún telur hagkvæmast, þegar bankinn verður gerður þess megnugur, að setja slíkt útbú á stofn.