27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

24. mál, stofnun Landsbanka

Ráðherrann (H. H.):

Hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), sem jafnframt er bankastjóri Landsbankans, hefir lýst yfir því einu sinni eða jafnvel tvisvar, að það væri ekki tilgangurinn með till. á þskj. 68, að stofnað yrði útbú erlendis nú þegar, heldur einhverntíma í framtíðinni. En fyrst svo er, hví á þá endilega að keyra þetta áfram nú, hví má ekki lofa mönnum, sem þetta kemur á óvart, að hugsa málið? Eg hefi litið svo á, að útbú bankanna væru til þess ætluð, að gera mönnum út um land hægara fyrir bæði til að fá lán og greiða þau, auk þess vitaskuld að koma út peningum bankanna. En þetta útbú er sagt til þess ætlað, samkvæmt orðum hv. þm., að útvega erlendis starfsfé til þess að Landsbankinn hafi efni á að koma á fót útbúi á Austurlandi. Þessu útbúi erlendis hlýtur þannig að vera ætlað alt annað fyrirkomulag en það, sem þekst hefir á útbúum bankanna hingað til. Eg get ekki hugsað mér, að útlendingar verði fremur bráðsólgnir í að lána fé sitt á þennan hátt en á þann hátt sem gengið hefir til þessa. Eg hygg, að ekki væri mikið í húfi, þótt beðið væri með þessa löggjöf, án þess að aftaka nokkuð um það, að þetta kunni að geta tekist til greina að einhverju leyti síðar.

Ummæli bankastjórans um stjórnarráðið leiði eg hjá mér að svo stöddu.