08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

24. mál, stofnun Landsbanka

Flutn.m (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Hér liggur fyrir sú br.till., að í stað orðanna: „í Suður-Múlasýslu“ komi: “ Austurlandi“. — Að mínu áliti er þetta mjög óheppileg br.till. Að vísu skal eg játa að nú sem stendur gerir þetta ákvæði hvorki til né frá, en í framtíðinni gæti það orðið hættulegt, því að þá er ekki útilokað að bæði útibúin lendi á sama stað, t. d. ef bankastj. væri nú Seyðfirðingar, en það má ekki verða. Engum dettur í hug að útbúið verði haft norðar en á Seyðisfirði, og að sjálfsögðu ætti það að vera fyrir sunnan hann. Að þessu athuguðu vona eg að háttv. deild sjái það, að meiningarlaust væri að samþykkja þessa br.till.

Aðrar br.till eru ekki fram komnar, svo að eg vona að frv. fái sama byr og síðast.