08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

24. mál, stofnun Landsbanka

Bjarni Jónsson:

Eg get ekki verið jafn fljótur í snúningunum og hv. þm. (J. J.), sem var meðhjálpari minn við þessa br.till., eða þá eg hans. Eg get ekki séð neina ástæðu til þess, að takmarka þetta nánar en við einhvern stað í landsfjórðunginum En hitt er rétt, að fela bankastjórninni það, að setja þetta væntanlega útbú þar sem hún álitur heppilegast. Hún má bezt vita hvar þægast er að koma því fyrir og gróðavænlegast, og jafnvel þótt bankastjórnin væri frá Seyðisfirði, þá mundi eg ekki óttast það, því að hvaðan sem bankastjórnin er af landinu, þá verður að ætla henni að hafa vit á þessu fyrir bankans hönd. Það er rétt sem rétt er, að nefna bara Austfirði, því að þótt háttv. þm. S -Múl. (J. Ó.) segi það ómáttulegt, að útbúið yrði sett norðar en í Seyðisfjörð, þá skal eg þó benda á þann máttuleika, að það það gæti orðið sett þar. Þær breytingar gætu orðið, að öllum þætti jafn sjálfsagt að hafa það einmitt þar. T. d. gæti verið risið þar upp „lotterí“ sem kallað er, eða t. d. snjóflóð fallin á Eskifjörð og Reyðarfjörð. (Jón Olafsson: Þau koma nú ekki þar, heldur einmitt á Seyðisfirði). Það getur verið, en alt þess konar verður bankastjórninni kunnugt um, og þingið á ekki að fara að binda hendur hennar, hvorki við Seyðisfjörð né SuðurMúlasýslu, heldur láta henni vera frjálst að velja um staði. — Eg verð því að halda fram br.till. og greiða henni atkv. mitt.