08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

24. mál, stofnun Landsbanka

Flutn.m. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg skal svara þessu stuttlega. Hræðsla hv. þm. við snjóflóð á Eskifirði og Reyðarfirði er á engu öðru bygð, en hinu auðuga ímyndunarafli hans. Þau koma þar aldrei, svo að menn viti, síðan landið bygðist, heldur einmitt á Seyðisfirði.

Hitt, að það sé sama hvort til er tekin Suður-Múlasýsla eða alt Austurland, nær engri átt. Það er einmitt ástæðan til frumvarpsins, að koma í veg fyrir það, að útbúin verði höfð bæði á sama stað, með því að það væri að bera í bakkafullan lækinn, að hafa þau tvö á ekki stærra svæði, en þá gæti notið þeirra, og sem þegar er að miklu leyti uppurið, sem von er á, en hin sýslan aftur á móti ónumið land í þessum skilningi. Hver einasti kunnugur maður veit líka að það er satt, sem eg sagði, að verði útbúið ekki haft á Seyðisfirði, þá er ekki að tala um að hafa það norðar, ekki að tala um Loðmundarfjörð, Víkur, Borgarfjörð, Vopnafjörð né Strandir. Aftur á móti liggur beinast við að setja það annað hvort á Eskifjörð eða Reyðarfjörð, þar liggur það bezt við fyrir allan suðurhluta Austfirðingafjórðungs.