27.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

32. mál, merking á kjöti

Framsögum. (Stefán Stefánsson):

Eg get verið stuttorður um þetta frv., þar eð engin mótmæli hafa komið fram gegn því. Aðalbreytingin, sem gerð hefir verið frá frv. því, sem lá fyrir síðasta þingi, er sú, að nú er eigi öllum ólærðum mönnum leyft að skoða og merkja kjöt eftir að hafa tekið próf hjá dýralækni, heldur að eins lögskipuðum læknum. En svo urðu líka nokkrar smábreytingar, t. d. sú, að þeir læknar er vilja verða kjötskoðunarmenn verða að taka próf hjá dýralækninum í Reykjavík eða á Akureyri; engir aðrir geta útskrifað þá til þess að stimpla kjötið. Áður var þetta látið laust og óbundið, hjá hvaða dýralækni slíkt próf var tekið. í fyrra var t. d. á Húsavík fenginn dýralæknir frá útlöndum til að skoða og merkja kjöt, en það mundi ekki geta álitist nægileg trygging að slíkum læknum yrði leyft að útskrifa kjötskoðunarmenn.

Þá er sú breyting, að í hinu fyrra frv. var aðeins talað um borgun 5 aura fyrir stimplun kjötsins; þetta var ekki nægilega ljóst ákvæði og höfum við flutningsmenn því álitið sjálfsagt að taka það fram, að borgunin 5 aurar skuli vera fyrir hvortveggja, bæði skoðun og stimplun kjötsins. Er því komið í veg fyrir að læknar geti tekið sérstaka borgun fyrir skoðunina. Í 2. gr. er það tekið fram að kjöt, sem merkt er dýralækismerki skuli ekki einungis vera heilnæmt eða með öllu ósaknæmt, heldur og slátrun og öll meðferð þess sé hreinleg og er því óleyfilegt að merkja skitna eða rifna kroppa til útflutnings. í 3. gr. er öllum öðrum en þeim sem nefndir eru í 1. gr. gert óheimilt að nota dýralæknismerkið; þar hefir nefndin komið með þá viðaukatillögu, að öðrum skuli óheimilt að nota merki á kjöt er svo eru lík dýralæknismerkinu að lit og lögun, að um megi villast. Eg hefi heyrt að merki Ditlevs Thomsens sé svo líkt merki dýralæknis, að vafasamt sé hvort ekki geti orðið misgrip á þeim. Merki Thomsens er þríhyrningur með innrituðu A-i. Þegar kjötið liggur lengi í tunnunum máist merkið og aflagast og væri þá vel hugsanlegt að ekki mætti sjá mun á slíkum merkjum. Þessa skoðun hefir jafn vel dýralæknirinn hér í Reykjavík látið í ljósi og álitið æskilegt að svo líkt merki yrði ekki notað. Nefndinni fanst því ástæða til að setja þetta viðaukaákvæði, því hugsanlegt er að einhver óski að nota kjötstimpil, sem jafn vel væri enn líkari. Loks leizt nefndinni rétt að lögin gengi í gildi þegar í stað, svo að þau gætu komið til framkvæmda á næsta hausti, og kom því með br.till. í þá átt.

Skal eg svo eigi orðlenga frekar um málið.