20.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

32. mál, merking á kjöti

Framsögum. (Stefán Stefánsson); Okkur nefndarmönnum, sem kosnir vorum hér í deildinni til þess að athuga þetta mál, fanst ekki ástæða til að semja sérstakt nefndarálit, þar sem efri deild hefir að eins gert tvær örlitlar breytingar við frv. Þessar breytingar eru þær, að eftir frv. eins og það er nú, er öllum lögskipuðum dýralæknum heimilt að kenna læknum kjötskoðun. Efri deild leit svo á, að það væri að eins tímaspursmál að dýralæknum yrði fjölgað, og fanst því ekki ástæða til að binda heimildina einungis við þessa tvo dýralækna sem nú eru. Hin breytingin fer fram á það, að stjórnarráðið semji reglugerð fyrir þessi kjötskoðunarpróf.

Báðar þessar breytingar telur nefndin heldur til bóta og ræður því deildinni til að samþykkja frv. eins og það liggur nú fyrir.