03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Ráðherrann (H. H.):

Eg er samdóma hv. 1. þm. N.-Múl. (Jóh. Jóh.) um, að það er óviðurkvæmilegt að ganga fram hjá stjórnarráðinu í slíku máli sem þessu. Hér er um talsvert verðmæti að ræða og ætti að vera sjálfsagt, að stjórninni gæfist færi á að rannsaka, hvort forsvaranlegt er að láta landið af hendi fyrir verð það, sem frá greinir, áður ákvörðun er tekin.

Hafi þetta mál verið borið undir ráðherra, þá hefir það í öllu falli ekki verið gert skriflega í embættisbréfi, eftir því sem landritari hefir tjáð mér. Það getur verið að munnlegar málaleitanir hafi um það verið við fyrverandi ráðherra. Eg hefi engin tök né færi haft til að kynna mér málavöxtu, og er því þýðingarlaust að vitna til mín. Mér finst að þurft hefði að virða þetta land, eins og vant er, þegar seldar eru opinberar jarðeignir. En engar slíkar virðingargerðir eru til. Því hefði verið réttast að útkljá ekki málið, heldur vísa því til stjórnarráðsins til venjulegrar meðferðar. En eg fyrir mitt leyti get þó látið mér lynda, að málið gangi til Ed. úr því svo er komið, sem komið er, því að eg hefi heyrt vel kunnuga og fulltrúandi menn fullyrða, að landspildan mundi ekki, þótt virðingargjald færi fram, verða metin hærra og naumast eins hátt, eins og frv. greinir, en hinsvegar bæjarstjórn Hafnarfjarðar áríðandi að fá landið kaupstaðnum til handa.