05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

36. mál, sala á eign Garðakirkju

Frams.m. (Björn Kristjánsson:

Eins og háttv. deild man var dálítill ágreiningur við síðustu umr. þessa máls um það, hvort það væri formlega lagt fyrir þingið, og voru sumir þingmenn deigir að greiða því atkvæði fyrir þá sök, að það væri ekki undirbúið eins og venja er til um slík mál, hefði ekki gengið í gegn um hreinsunareld stjórnarinnar.

Eg hélt því fram um daginn. að þetta mál hefði verið borið undir landritara. En eg hefi síðan fengið upplýsingar um að þetta er ekki rétt, heldur var það borið undir þáverandi ráðherra sjálfan. Prófastur bar málið undir ráðherra, en hann vísaði til kirkjustjórnarinnar, áleit hana kunnugri málavöxtum og réttara að hún undirbyggi málið. Eg verð því að álíta, að þeir, sem hér eiga hlut að máli, hafi farið laukrétt að. Þeir snúa sér til ráðherra; hann vísar til kirkjustjórnar; hún segir sitt álit og síðan er farið með málið til þingsins. Fyrverandi ráðherra er hér í deildinni og mun hann leiðrétta ef eg skýri ekki rétt frá.

Eg sé svo ekki ástæðu til að tala mikið meira um þetta mál. Það hefir verið rækilega upplýst fyrir nefndinni og við fyrri umr. hér í deildinni hvað selt er. Aðeins skal eg geta þess að það sem Hafnarfjarðarkaupstaður á af landi, er jörðin Akurgerði sem nær frá Fiskakletti suður undir lækinn, og sem er megnið af kaupstaðarstæðinu. Sunnarlega í þessari skák eru býli, sem hafa töluvert af fénaði og beita þessa tungu upp að Grindaskörðum. Garðakirkja hefir því engin not af þessu landi og er það því bundið fé fyrir henni að sitja með það.

Eg tel óþarft að mæla frekar með þessari sölu en gert hefir verið, en vona að deildin samþykki frv.