19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

37. mál, vörutollur

Ólafur Briem:

Þó að br.till. mínar á þgskj. 309 séu nokkuð fyrirferðarmiklar, eru þær meira í orði en á borði. Aðal tilgangur þeirra er að breyta orðalagi 1. gr. svo að flokkaskipunin verði hreinlegri og skilmerkilegri. Þó fara þær fram á nokkrar efnisbreytingar, og er sú helzta þeirra að lækka toll á kornvöru niður í 10 aura úr 25 aur. á hverjum 50 kílógr. Það má ef til vill segja, að 25 aur. sé ekki ýkja hár tollur á dýrustu kornvörum t. d. hveiti. En hann er óhæfilega hár á ódýrustu kornvörunni, rúgi og er það sú kornvaran, sem mest er brúkað af hér, og mundi hann því leggjast þyngst á efnaminni hluta þjóðarinnar, einkum fátækt fjölskyldufólk, ekki síst í kauptúnum og við sjávarsíðu. Önnur till. sem miðar að því að létta tolli af vörum er sú, að flytja gaddavír í 2. flokk, svo aðeins séu borgaðir 25 aurar af hverjum 50 kílógr. í stað 1 kr. eftir frumvarpinu. Ástæðan til þessarar till. er sú, að nú er orðinn afar mikill áhugi meðal bænda í þá átt, að girða lönd sín, ekki að eins tún og engi, heldur einnig beitilönd og jafnvel afrétti Fátækir menn kljúfa þrítugan hamarinn til að koma girðingum á hjá sér og kemur það því í góðan stað niður að lágt gjald sé á þessu girðingarefni. Enda verður ekki örðugt að greina gaddavír frá annari vöru.

Þá er ein vörutegund, sem ekkert gjald á að vera á samkv. frumvarpinu, en eg legg til að sé sett í 2. flokk. Það er hey. Það er ekki mikið flutt inn af heyi, en hins vegar virðist svo sem útlent hey sé ekki sú nauðsynjavara að ástæða sé til að hafa það gjaldfrjálst.

Þá legg eg til að kolatollurinn sé hækkaður upp í 1,50 kr. af hverri smálest. Ástæðan til þessarar till. er sú að alt að helmingi af þeim kolum, sem til landsins er flutt, er brúkað af útlendingum. Þetta gjald er engin áníðsla á þeim útlendingum, sem það legst á, því þeir leggja að öðru leyti ekkert til landsins þarfa. En það kemur þyngst niður á innlendum mönnum, aðallega á botnvörpuútgerðarmönnum, en þeim mætti bæta gjaldið upp á einhvern hátt, t. d. með auknum fjárframlögum til eflingar sjávarútvegsins.

Þá er á þgskj. 313 viðaukatill. við 2. lið 1. gr. um hærri toll á alskonar vefnaðarvöru, nefnilega 3 kr. af hverjum 50 kílógr. Að vísu er þessi vara óþjál í meðförum til tollálagningar, en afar mikil sanngirni mælir með því að hækka tollinn á henni, því að eftir skýrslu sem fylgdi nefndaráliti minni hluta tollnefndarinnar hér í deildinni, þá yrði tollur á vefnaðarvöru með 1 kr. gjaldinu aðeins 1/3% eða langt fyrir neðan alt annað hundraðsgjald. Þó gjaldið sé hækkað upp í 3 kr. af hverjum 50 kílógr., þá yrði hundraðsgjaldið þó ekki nem 1% og er því samt sem áður lægra en á nokkurri annari vöru samkvæmt þessu frv., og enn hefi eg ekki heyrt neina fullnægjandi ástæðu fyrir því, að innheimta gjaldsins sé óframkvæmanleg.

Þá er br.till. við 2. gr. um að prentuð blöð og bækur skuli ekki undanþegin gjaldi Þetta munar ekki miklu, en væru þær tollfrjálsar, þá væru það verðlaun til þeirra sem láta prenta bækur sínar annarsstaðar, því að frv. leggur toll á vanalegan pappír, gjaldið yrði það gagnstæða við verndartoll á innlendum iðnaði, þar sem það mundi vernda útlenda bókaprentun, en gera innlendri bókagerð örðugra fyrir.