19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

37. mál, vörutollur

Lárus H. Bjarnason:

Það var sagt hér á dögunum og rökstutt af mér og hv. þm. S.-Þing. (P. J.), að landssjóður hefði í árslok 1911 átt tekjuafgang að upphæð 38.965 krónur og í rauninni mætti þar við bæta 52.497 kr. og er það samtals 91.462 kr. Svona byrjaði þá árið 1912. Þetta er ómótmælanlegt, enda bygt á skýrslum stjórnarráðsins. Þessar 52 þús. kr. er í raun og veru afgangur, því með þeim var borgað verk, sem ekki mátti gera fyr en árið 1912. Á fjárhagstímabilinu 1912—1913 má a. m. k. gera ráð fyrir sömu tekjum og 1910—1911, en þá urðu tekjurnar eftir skýrslu stjórnarráðsins 3.571.000 kr. En tekjurnar hljóta jafnvel að verða meiri á yfirstandandi tímabili vegna þess, að á síðasta þingi voru búin til ekki fá tekjulög. T. d. aukinn tollur á kaffi og sykri, hækkað vitagjald, erfðagjald og aukatekjur. Peningamálanefndin í Nd. á síðasta þingi, Ed. nefndirnar þá, og skattamálanefndin nú hafa áætlað að tekjuaukinn af þessum frumv. verði um 170 þús. kr. á öllu tímabilinu. Eftir því eiga tekjurnar á yfirstandandi fjárhagstímabili að verða 3.741.000 krónur. Frá þessu verður þó aftur að draga nokkuð, vegna þess að sumar tekjurnar ganga til rýrnunar. Áfengistollurinn lækkar líklega um 150 þús. kr. og silfurbergstekjurnar um 17.000 kr. og yrðu tekjurnar þá um 3.570.000 kr. Gjöldin á yfirstandandi tímabili eru áætluð 3.337.000. En þar við má bæta talsverðu, máske framundir 300 þús. kr., nefnilega 30 þús. kr. til aukaþingshalds, 24 þús. kr. til prestslaunasjóðs, 100 þús. kr. til Reykjavíkurhafnar, 50 þús. kr. til borgunar á vöxtum af veltufé landssjóðs, og loks 75 þús. kr. til aukafjárlaga. Eftir þessu má ætla að gjöldin verði samtals 3.612.000 kr. Láti nú þessi útreikningur minn og hv. þm. S.-Þing. (P. J.), sem er gerður eftir skjölum frá stjórnarráði, nœrri sanni, þá ætti tekjuhallinn eftir fjárhagstímabilið ekki að fara fram úr 40.000 kr., enda kemur það vel heim við það sem fyrv. ráðherra hefir sagt mér, að ekki væri brýn þörf á nýjum tekjuaukalögum. Hinsvegar getum við ekki vitað neitt með vissu hvernig tekjur og gjöld muni verða á tímabilinu 1914—1915, en spár um það, verðum við að byggja á reynslu undanfarinna ára. Gerum ráð fyrir að gjöldin verði lík sem á yfirstandandi tímabili, nefnilega um 3.600.000 kr. og er þá ekki tekið tillit til þess sparnaðar, sem af því hlýtur að leiða að símar verða framvegis leigðir með lánum, en ekki kostaðir af árlegum tekjum. Og gerum ennfremur ráð fyrir, að tekjurnar verði líkar og á yfirstandandi tímabili að frádregnum áfengistollinum, ca. 400.000 kr. og gjöldum fyrir vínsölu- og veitingaleyfi ca. 18 þús. Tekjumar yrðu þá um 3.300.000 kr. og vantaði þá ekki nema um 300.000 kr. á að tekjur hrykki fyrir gjöldum.

Nú í dag er hv. Ed. að samþykkja lotterífrumv., en það á að gefa landssjóði a. m. k. 200.000 kr. á ári eða 400.000 kr. á fjárhagstímabili, og mundi það þannig eitt út af fyrir sig nægja til þess að tekjur og gjöld stæðust á 1914—15. Ed. nefndin segir, að það sé sama sem víst að lotteríið komist á og sé eg því, þegar af þeirri ástæðu, enga þörf á því að þingið úngi út nýjum skattalögum nú, og ekki hygg eg að kjósendur okkar, eða þjóðin í heild sinni, taki sér það neitt nærri þótt við ekki dembum yfir hana þessu rangláta gjaldi.

Eg hefi heyrt sagt, að landið ætti talsverðar eignir í mjög auðseldri vöru, nefnilega gömlum frímerkjum, og mætti þá nota þau ef nauðsyn bæri til.

Þá er enn ónotuð heimild til þess að taka 500.000 kr. lán.

Og þó að alt um þryti, þá væri þó enginn voði fyrir dyrum. Viðlagasjóður gæti tekið við skellinum.

Það er þannig engin þörf á að skella þessu gjaldi á þjóðina, enda vona eg að hv. deild minnist orða hv. núverandi ráðherra á Alþingi 1911. Hann áleit það þá ómögulegt, vegna þess að bæði væri það ranglátt og innheimtan afarerfið. Hæstv. ráðh. (H. H.) taldi það þá ógerning, að skylda útlendinga til þess, að láta fylgja farmskrár með öllum vörum, sem þeir sendu hingað og þekki eg ekki, að það sé orðið auðveldara nú.

En eigi að koma til mála að sleppa frv. út úr deildinni þarf það a. m. k. mikilla umbóta við. Að því miða br.till. mínar á þskj. 310 og vil eg víkja að þeim í nokkrum orðum.

2. brtill. tek eg þó aftur.

Breytingartillögur mínar miða allar að því, að tollurinn komi réttlátlega niður. Um jarðeplatollinn er það að segja, að hann kemur langharðast niður á fátæklingum og fjölskyldumönnum og helzt þeim, sem við sjó búa og eiga enga garðholu sjálfir.

Gjaldið af skipsbrauði yrði eftir frv. án umbúða 9% og með umbúðum 12°/0. Þetta mundi auka kostnað skipsútgerðarmanna mjög tilfinnanlega og aukinn kostnaður útgerðarmanna er sama sem lækkun á kaupi sjómanna.

Eg vil gera skipsbrauðinu sömu skil og kornvörunni.

Þá hefl eg lagt til, að sama gjald komi á gaddavír og hrátjöru sem á smíðajárn. Allir vita, hve afarnauðsynlegt það er að girða lönd, og þar sem mikið er undir því komið að landið sé ræktað, þá tel eg að gjaldið á gaddavír eigi að vera lágt. Líku máli og um gaddavírinn gegnir um hrátjöru fyrir sjómenn. Hún er þeim jafn ómissandi og gaddavírinn sveitamönnum, til þess að verja skip og báta, og yrði 14% gjald á henni skipa- og bátaeigendum mjög tilfinnanlegt.

Eg tel sjálfsagt að ekkert gjald komi á sement, kalk og asfalt. Vörur þessar eru nauðsynlegar til steinbygginga, en þær byggingar aftur í alla staði æskilegri en timburhús, og ætti því að hvetja menn sem bezt til að byggja úr steini. Asfalt kvað vera alveg ómissandi til að gera kjallara vatnshelda. Því álít eg sjálfsagt að hafa engan toll á þessum vörum og síst má hann vera jafnhár og ætlast er til í frumv., 25% t. d. á asfalti.

Sama er að segja um steinolíuna, eg álít að engan toll eigi að leggja á hana. Steinolían er ekki að eins nauðsynleg til ljósmetis, heldur er hún líka hreyft afl allra mótorbáta og kemur kannske von bráðar að miklu leyti í stað kola, ef farið verður að nota svokölluð Diesel-mótorskip, sem nú er farið að smíða og hafa reynst mjög vel. Steinolían er þar að auki stígin svo í verði, að tolli er varla viðbætandi. Þótt nú tollurinn sé ekki meir en 10 aurar á 100 pd., þá eru það þó 37 aurar á fatið, ef mér er rétt sagt, að fatið sé 370 pd. og sjálfsagt munu seljendur steinolíunnar nota sér tollinn til þess að hækka verðið enn meir, ef til vill um 1 kr. enn.

Kolin vildi eg helst að væru tollfrjáls, en vegna þess að eg býst ekki við að það fáist, þá legg eg til að gjaldið af smálest hverri verði 50 aurar í stað 1 krónu.

Af líkri ástæðu sem eg vil að kol og steinolía séu tollfrjáls, legg eg til að salt verði tollfrjálst. Yfir höfuð álít eg mjög óhyggilegt að tolla vörur sem aðallega auka framleiðslu í landinu. Tel betra fyrir sjómenn að kaffi- og sykurtollur væri hækkaður, en tollur lagður hvort heldur á kol, salt eða steinolíu.

Eg hefi lagt til, að í staðinn fyrir salttollinn komi tollur á vefnaðarvöru. Eftir tillögum háttv. 1. þm. G.-K (B. Kr.) verða þær vörur altof vægt úti. Hann leggur t. d. á silki að eins 1/3% á ullarvefnað 1/9% og á baðmullarvefnað 1/10%. Eg álít sjálfsagt að þessar vörur beri sitt.

Eins og eg vil undanskilja steinolíu tolli, eins vil eg undanþiggja carbid, sem menn eru nú farnir að nota mikið bæði á sjó og landi. Er það bæði ódýrt og gott og líklega enginn vafi á því, að það verður enn meir notað ef steinolían heldur áfram að vera svona dýr.

Eg vil líka leyfa mér að mæla með því að endursent íslenzkt saltkjöt verði tollfrjálst. Eg hefi heyrt sagt, að sláturfélagið hér fái árlega endursendar 2— 300 tn., og ein verzlunin hérna yfir 100 tn. af saltkjöti. Kjöt þetta kvað svo vera selt innlendum fátæklingum, aðallega sjómönnum.

Af sömu ástæðum, eða til þess að létta undir með sjávarbúum, leyfi eg mér að leggja til, að heldur enginn tollur sé lagður á endursendar fiskumbúðir og kork.

Mig furðar á að hv. þm. G.-K. (B. K.), sem er þingm. einna stærstu sjávarþorpa á landinu, skuli ekki hafa hugsað meira um hag kjördæmis síns en frv. hans ber vott um.

Undanskilin tollinum vil eg líka að séu blöð, pappír og hverskonar listaverk, hvort heldur eru standmyndir, málverk, teikningar eða annað. Eg vil ekki að sé neinn tollur á þessu, hvort sem þetta er flutt til landsins með pósti eða á venjulegan hátt. Hygg eg að mönnum myndi hafa þótt hart, ef borga hefði þurft háan toll af standmyndinni af Jóni Sigurðssyni.

Hv. þm. G.-K. (B. K.) sagðist ekki skilja hvers vegna engan toll ætti að leggja á hey, maís, bygg, hafra og melasse. Hafi hv. þm. einhverntíma heyrt talað um fóðurskort, þarf ekki að skýra það nánar, og hafi hann ekki heyrt hans getið, mundi engin skýring nægja.

Hvað snertir síðustu breytingartillöguna, að lögin gangi í gildi 1914 og gildi til ársloka 1915, þá er hún framkomin vegna þess, að eg álít að landið geti vel bjargað sér á árunum 1912—’13 og því engin ástæða til þess, að lögin gangi í gildi fyr. Annars er þetta skuldabasl sem altaf er verið að stynja undir, ekki svo mjög að kenna fjárskorti, sem því, hvernig farið er með viðlagasjóð. Áður var viðlagasjóður að miklu leyti í reiðupeningum, en nú er hann aðallega brúkaður til þess að lána úr honum til fyrirtækja, sem enginn vitheill maður fæst til að lána út á. Það er ekki langt síðan 1 sparnaðarþingmaðurinn píndi út úr þinginu heimild til stórláns út á verksmiðjuskrokk, sem hann kannaðist við, að ekki væri lánandi út á, og maður í stjórnarráðinu sagði að væri sama sem einskis virði, en lánið fékkst nú samt. Þingið er altof skeytingarlaust um viðlagasjóð, og stjórnin ekki nógu þrekmikil til þess að neita um hin leyfðu lán.

Falli tillögur mínar mun eg með ánægju greiða atkvæði móti frv., því það er í raun og veru með engu móti boðlegt, að skella því óundirbúnu á þjóðina og það á aukaþingi. Efri deild sker niður frv. vandlega undirbúið, sem farið hafði héðan úr deildinni með 16 atkvæðum, með þeim fyrirslætti að hér sé á leiðinni frv. sem ráðherra muni ætla efri deild að samþykkja. Þá hafði þetta frv. að eins flotið til 2. umræðu án þess að nokkuð hefði verið um það rætt.

Eg vona að hæstv. forseti hafi nafnakall um frv.