19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

37. mál, vörutollur

Ráðherrann (H. H.):

Mér getur ekki annað en komið það hálfundarlega fyrir að heyra hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) tala af svo miklum fjálgleik um það, að engin ástæða sé til að samþykkja nein tekjuaukalög á þessu þingi og engin þörf sé á auknum tekjum 1913, þar sem sami hv. þm. hefir fylgt af kappi öðru frv. um hærri toll og meiri tekjur, sem einmitt átti að öðlast gildi í ársbyrjun 1913. Var hann þá vísvitandi að vinna að því að leggja þung gjöld á þjóðina algerlega að nauðsynjalausu? Eða barðist hann þá fyrir því, sem hann áleit réttast? Þá getur þessi hv. þm. ekki hafa verið í neinum vafa um að peninga þyrfti. (Lárus H. Bjarnason: Hvernig getur maðurinn sagt þetta? Eg hefi altaf sagt, að ekki væri brýn þörf á peningum).

Eg hefi ekki tök á því nú, að rekja tölur þær út í æsar, er hann taldi upp, enda heyrði eg ekki nema part af þeim, og virtist mér eg hafa heyrt eitthvað svipað áður hjá hv. þm. S.-Þing. (P. J.) En það get eg fullvissað menn um, að sum gjöldin áætlaði hann mikils til of lágt. Hann sagði meðal annars að fjáraukalög á næsta þingi mundu ekki fara fram úr 75 þús. kr. En eg get sagt hv. þm. að þetta nær engri átt. Eg get bent þar á einn einasta gjaldlið sem nemur 60 þús. krónum. Það er fyrir bráðnauðsynlega viðbót við pósthúsið og ritsímastöðina hér. Og margt annað, sem talsvert háum upphæðum nemur, steðjar að auk þess, sem nauðsynlegt verður að greiða fyrir þing upp á væntanlega eftirveiting, þar á meðal talsverður kostnaður til háskólans og annara skóla.

Það er engin ástæða til þess að búast nú við betri afkomu en vant er. En eins og sýnt er í álitsskjali millilandanefndarinnar, er það meðaltal síðan á síðastliðnum aldamótum, að gjöldin fari alt að 18% fram úr fjárlagaveitingum, en það svarar til þess, að útgjöldin eftir fjáraukalögum og nýjum lögum yrði á yfirstandandi fjárhagstímabili, 1912— 1913 meira en hálf miljón fram yfir fjárlagaveitinguna, sem nemur 3.333.000 krónur. Hvar standa bollaleggingar hv. þm. þá?

Hv. þm. má trúa því að engin breyting hefir orðið á tekjuþörf landssjóðs síðan frumvarpið um factúrutollinn var hér á ferðinni. Hún er söm og jöfn sem þá. Enda skil eg ekki í öðru en þingmaðurinn átti sig á þessu þegar hann gefur sér tóm til að hugsa betur um það. Hv. þm. sagði að enn væri ónotuð heimild til að taka 1/2 milj. króna lán, sem altaf væri hægt að nota ef í harðbakka slægi. Mér getur nú ekki annað en fundist það svakalegur útvegur, að gefa ávísun á að éta upp lán, sem ætlað var til hafnarinnar í Reykjavík, þó að vel megi vera, að ekki verði hjá því komið að nota það fé í bráðina, svo framarlega sem lánið fæst. En þá þarf þó að borga peningana von bráðar aftur, og meira að segja 1/15 hluta af hálfri miljón eða 33.333 kr. í afborgun þegar á næsta ári, 1913, eftir því sem láns ádrátturinn liggur fyrir.

Ekki hefir hv. þm. tekið þá greiðslu með í reikning sinn fremur en svo margt annað, t. d. afborgunina af þeirri hálfu miljón, sem búið er að éta upp af bankavaxtabréfafúlgunni frá 1909, víxlana, sem landssjóður vísar o. fl. o. fl. Nei, hv. þm. tjáir ekki að reyna nú að sálga þessu frumv. með því að gylla fjárhaginn, hvort sem gyllingin er af ókunnugleik sprottin eða ekki.

Eg treysti því, að deildin vilji koma landssjóði úr fjárþrönginni, og skora á hana að sjá um að þetta frv. komist í gegn sem síðasta úrræði.

Breytingartillögur hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) virðast mér allar stefna að því, að draga úr tekjunum af frv. og gera lögin örðugri til framkvæmda. Þegar hann var að mæla með verðtolli, mátti engin vara vera undanskilin tolli. Þá var ekkert carbid til fyrirstöðu, þá var ekki hugsað um kol né steinolíu né neinar þessar vörur sem hann vill undanskilja nú, heldur alt tollað að undanteknum heimilismunum manna er fluttu til landsins og farangri ferðamanna. En nú, þegar verðtollurinn hans er fallinn, þá á það að vera brot á móti heilögum anda að leggja nokkurt gjald, hve lágt sem það er, á hinar og þessar vörur, sem hjálparandinn í kaupmannaráðinu hefir gefið honum uppskrift yfir. (Lárus H. Bjarnason: Þetta er alt óhugsað).

Eg álít að eftir atvikum sé frv. því betra því færri sem undantekningarnar og þar með flokkarnir eru, þótt segja megi að þá verði það ranglátara með tilliti til verðmætis hinna ýmsu tegunda varnings. Ekki má við öllu sjá, og fyr má sætta sig við það, en synt sé fyrir öll sker.

Aðaláherzluna verður að leggja á það, í slíkri bráðabirgðaráðstöfun, að gjaldið sé sem auðveldast í innheimtu. En ef nú ætti að fara að gera ótal undantekningar mundi fyrirhöfnin við innheimtu gjaldsins vaxa margfaldlega. Þó að eg verði að fallast á það, að það hafi nokkuð til síns máls að hækka farmtollinn á vefnaðarvöru, því að hún er dýr, álít eg það þó ekki heppilegt, þar sem það mundi valda afarmiklum umsvifum fyrir innheimtumenn að sigta hana úr og taka annað gjald af henni heldur en öðrum varningi er flyzt sem „stykkjagóss“.

Af öðrum breytingartillögum felli eg mig bezt við tillögur hv. 1. þm. Skg. (Ó. Br.) á þgskj. 309, sem höfundur frv. hefir tjáð sig fylgjandi. Aðeins verð eg að vera á móti 1,50 kr. tolli af hverri kolasmálest. 1 kr. toll álít eg viðunandi og mæli því með því að varatillagan á sama þingskjali verði fremur tekin.

Leyfi eg mér svo aftur að mæla hið bezta með frv. og treysti hv. deild að sjá um, að það komist fram svo landið verði ekki eftirskilið fjárvana.

Eg orðlengi þetta svo ekki frekar að sinni, en legg til að breytingartillögurnar á þgskj. 310 verði feldar.