19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

37. mál, vörutollur

Pétur Jónsson:

Eg býst við, að ekki verði hjá því komist að gefa þessu frv. atkvæði, í einhverri mynd, sakir þess, að það eru ekki forsvaranleg viðskil ef ekki verða gerðar frekari ráðstafanir til tekjuauka fyrir landsjóð en nú er orðið. Eg skal ekki fara mörgum orðum um, hvað mér er ógeðfeldara þetta frv. en verðtollsfrv. sem felt var í Ed. Það álít eg að hafi verið vanhugsað af Ed. og segir mér svo hugur um, að ekki sé búið að bíta úr nálinni með þá vanhugsun. Það er ekki sagt til hvers það leiðir ef þetta farmgjaldsfrv. verður samþykt. Þegar það er skoðað svo að það sé einungis samþykt til bráðabirgða þá getur það talist þolandi, þó að það komi ósanngjarnlega við. En sé það látið gilda um óákveðinn tíma er eg hræddur um að af þessu leiði stefna, sem er skaðleg fyrir okkar tollmálalöggjöf. Eg skal ekki fara út í theoríur, því að hér hefir öllum theoríum verið afneitað. Þetta frv. er það eina sem eftir er, og það kemur ekki heim við neina skatta- eða toll-theoríu.

Eg hefi leyft mér að koma fram með nokkrar br.till. á þgskj. 311. Þær eru við br.till. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) á þgskj. 309. Gerði eg ráð fyrir að þær till. yrðu samþyktar, því að þær miða til bóta á formi frv., og þess vegna miðaði eg mínar br.till. við þær.

Fyrsta br.till. mín fer fram á bæta inn í 1. lið tjöru meðal þeirra tegunda sem taldar eru í 5. flokki. Eg meina þar allskonar tjöru. Eg sé eftir að hafa ekki tekið asfalt með, en eg vona að það geti heimfærst undir tjöruna, því að það er henni svo náskylt. Eg vil ekki fæla menn frá að nota nytsama vöru með því að leggja háan toll á hana, þó lítið sé keypt af henni, og það getur ekki dregið landssjóð neitt.

Þá þótti mér 2. liðurinn óskýr, þar sem talað er um járnvörur, gaddavír og þess háttar. Vil eg að þar sé skýrt tekið fram, að járnstólpar til girðinga skuli heyra þar undir og fer eg fram á það með 2. br.till. minni. Geri eg það sömuleiðis til þess, að fæla menn ekki frá að kaupa þetta efni.

3. br.till. mín er um það sem stendur í 3. lið br.till. við 1. gr. Þar er gert ráð fyrir, í stafliðunum a og b, að 50 aura tollur sé af hverri smálest af salti og 1,50 kr. af hverri kolasmálest. Fer eg fram á, að báðir stafliðirnir falli burt, en í stað þeirra komi: „1 kr. af hverri smálest“, þ. e. jafnt af hvorutveggja, salti og kolum. Með þessu vildi eg jafna úr og láta gjaldið dreifast víðar. Fyrir botnvörpunga er þetta nokkurnveginn það sama, en hins vegar er það hagur fyrir iðnaðarfyrirtæki sem brúka kol til hreyfiafls. Það má reyndar segja, að með því að hækka tollinn á saltinu, sé sjávarútveginum íþyngt, en þó er gjaldinu dreift víðar með því en með kolatollinum, því að kaup á salti eru miklu almennari en kolakaupin. Þar sem 1 krónu tollur af hverri kolasmálest er tiltekinn í frv. sjálfu hefði reyndar verið óþarfi fyrir mig að koma með þessa breytingu. En úr því að eg stílaði br.till. mínar við br.till. hv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) vildi eg breyta þessu um leið.

Þá kem eg að síðustu og stærstu brt. minni. í 5. lið brt. háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) er ákveðið 1 krónu gjald af hverjum 50 kg. af þeim vörum sem ekki eru taldar í neinum flokki. Þar þykir mér of hátt farið. Farmgjald þarf að vera lágt, til þess að það sé þolandi á ýmsum sérstökum vörum, sem ekki verða aðgreindar frá þessum almenna flokki, nema til þess, að gera gjaldheimtuna afar örðuga og tollsvik hæg.

Þeir sem hafa fengist við byggingar eða verzlun þekkja þetta og hirði eg ei að telja upp mörg dæmi þar að lútandi. Eg vil því lækka þetta almenna gjald, því að þótt það geri lítið til, að það er gríðarhátt „prosentvis“ á krít eða þess konar vöru sem lítið er keypt, þá er það afartilfinnanlegt á mikið keyptri vöru, svo sem t. d. leirvöru, því að allmikið er keypt t. d. af leirpípum og ódýru leirtaui til heimilisþarfa. Þessi vara flyzt í svo þungum umbúðum að tiltölulega er meira gjald á þeim. Sumar þurfavörur, svo sem til bygginga og iðnaðarfyrirtækja, sem í þessum flokki lenda, útilokast frá innflutningi með svo háu gjaldi. En með því að lækka gjaldið um helming eins og eg benti á, þá er það ekki eins óviðunandi, og eg get því að eins verið með farmgjaldi að það sé gert.

Eg skal geta þess, að eg hefi sent í prentið brtill. við brtill. þgskj 310, þess efnis, að lögin skuli gilda frá ársbyrjun 1913 til ársloka 1915. Eg er á móti því, að frv. komi ekki strax í gildi. En hins vegar greiði eg atkvæði með þessu frv. með því skilyrði að það, eins og við settum um verðtollinn, sé reynt einungis til bráðabirgða, til þess að bæta fjárhaginn á næsta tímabili og hins vegar til að prófa sig fram. En eg vil ekki slá því föstu að þetta sé rétt princip til frambúðar. Þess vegna vil eg að frv. gangi í gildi frá ársbyrjun 1913, en gildi fyrst um sinn ekki lengur en til ársloka 1915.

Þótt eg hafi komist að svipaðri niðurstöðu um fjárhaginn og háttv. 1. þm. Rv. (L. H. B.), þá álít eg samt að við þurfum fé á næsta ári, því að margt annað er á að líta en fjárhaginn eftir fjárlögunum. Við þyrftum helzt að safna fyrir fé í landssjóði, svo að ekki þyrfti að taka að láni alt það veltufé sem landssjóður þarf að hafa. Gæti það náðst með þessu frv. þá kæmi það fullkomlega að góðum notum. Eg hygg að nægar tekjur fáist með frv., þó gjaldið sé lækkað, til að fleyta okkur fram yfir yfirstandandi fjárhagstímabil, og það geti gefið fjárhagsgrundvöll fyrir 1914 —15 og næsta þing eigi þá auðveldara með að bæta úr skák.

Þá eru tillögur milliþinganefndarinnar í skattamálum 1908. Ef stjórnin vill ekki flytja þær, þá vona eg að eg geti fengið einhvern til að flytja þær með mér inn á þingið.