19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

37. mál, vörutollur

Eggert Pálsson:

Þetta frv. var ekki mikið rætt við 2. umræðu, tal manna snerist þá miklu meir að verðtollinum, enda getur engum dulist að eins og mikill meiri hluti nefndarinnar félst á verðtollinn frekar farmgjaldinu, svo hefir og meginþorri deildarinnar hneigst að sömu skoðun. Flutningsmaður þessa frv. hefir líka játað, að hann hafi ekki búist við að það fengi mikinn byr. Nú er hitt frv. felt í Ed., og vita allir að það var fyrir kapp og undirróður einstakra manna; það á sem sé að neyða okkur, hina sem vorum með verðtollinum, til að greiða nú þessu frv. atkvæði, með því að fjárþörf landssjóðsins kalli svo ríkt á eftir. Eg lít nú að vísu svo á að nauðsyn sé á því að auka tekjur landssjóðs innan skamms. En hins vegar ætla eg að einhvern veginn megi bjargast enn um sinn án þess að auka tekjurnar; og í annan stað er ekki sagt að engin önnur ráð séu til en að samþykkja þetta frv. Enn er t. d. lifandi kolatolls frv. í Ed., sem margir mundu frekar kjósa heldur en þennan vandræðagrip, sem hér er að oss haldið. Þótt því þetta frv. félli, þá er ekki með öllu loku skotið fyrir að útvega megi landssjóði tekna á annan hátt. En eins og eg sagði áðan, þá álít eg að ekki séu eða verði þau vandkvæði á að ekki megi bjargast til næsta þings þótt ekkert frv. um auknar tekjur yrði samþykt frekar en orðið er. Við erum þegar búnir að samþykkja lotterífrv., sem fylt ætti að geta einhverja holuna og að því leyti sem það ekki dygði, mætti bjargast við lántöku til næsta þings. En þessu frumv. greiði eg ekki atkvæði mitt fyr en í ítrustu nauðsyn. Og sú ítrasta nauðsyn er vitanlega ekki komin enn. Eg læt ekki fyr en í síðustu lög neyða mig með undirferli og brögðum til að greiða atkvæði móti sannfæring minni. Þetta vildi eg taka fram, áður en gengið væri til atkvæða, svo að sérhver geti skilið hvers vegna eg greiði atkvæði á móti þessu frumvarpi.