19.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

37. mál, vörutollur

Benedikt Sveinsson:

Það er sagt að botnvörpuveiðaútgerðirnar þoli að bera mikil álög, og það er víst um það að þær gera það ósvikið. En það dugar ekki að leggja sífelt á þær ný gjöld, það þarf þó að hafa einhverja takmarkalínu, og óvíst er, hvort sá útvegur þolir altaf ný og ný álög, flestar útgerðirnar eru með skuldum og svo ef veiðar bregðast eða eitthvað slíkt bjátar á, þá er tapið stórkostlegt og ekki rétt að auka það með því að íþyngja útgerðunum með sífeldum sköttum. Það væri heldur rétt að ýta undir botnvörpuveiðarnar.

Kolatollurinn legst einnig mjög þungt á fátæklingana og aðallega á þá, sem í lélegustu húsunum búa, og er lands sjóður með honum að gera sér mat úr því erfiði og kostnaði, sem fátæklingar leggja í sölurnar til þess að verjast frostinu og kuldanum.

Menn hafa gert sér von um að græða á útlendingum með þessum tolli, en það verður þá ekki nema rétt í bráðina. Því að eins og flestir vita, hafa nú útlendingar, þó einkum Englendingar, verið nú á síðustu tímum að taka upp nýtt snið á botnvörpuskipum sínum og er það þannig, að skipin eru svo stór, að þau geta flutt með sér alt er þau þurfa með í hverri ferð og eru því ekki háð viðskiftum annara þjóða. Einnig sést nú í öllum útlendum blöðum að altaf er að færast í vöxt notkun hinna svonefndu „Diesilmótora“, og munu þeir bráðlega koma í stað gömlu vélanna á skipum.

Eg geri því ráð fyrir því, að þótt kolatollurinn komist á, þá verður hann aldrei frambúðartollur.

Ekki verður því heldur neitað, að því er til útgerða og sjómanna kemur, að þeir séu fullhlaðnir gjöldum. Til dæmis segja menn að þorkkindin sé fjórtolluð: 1. tollur á útfl. fiski, 2. tollur á útfl. fisklýsi, 3. tollur á útfl. hrognum, 4. tollur á útfl. sundmaga, og svo bætist nú ofan á þetta salttollurinn, auk þess að síðasta Alþingi hefir nú hækkað nokkuð tilfinnanlega bæði vitagjald og hafnargjald.

Eg sé að það er komin fram br.till. í þá átt, að lækka toll á kolum niður í 50 aura og afnema toll af salti. Mun eg að sjálfsögðu greiða þessum till. atkv. á sínum tíma.

Eg get ekki fallist á að nauðsynlegt sé að leggja innflutningsgjald á hey. Það er hverfandi lítið, sem flutt er inn af útlendu heyi í vanalegum árum. Þess er helzt þörf í hallærum og gæti þá komið sér vel að fá frá útlöndum nokkra skipsfarma af heyi og fóðurkorni, en það virðist harla óeðlilegt að hið opinbera noti sér hallæri og neyð almennings til þess að fá fé í landssjóðinn.

Hitt get eg fallist á, með hv. 1. þm. Árn. (S. S.). að ekkert sé á móti því að leggja toll á innfluttar kartöflur. Þær eru töluvert ræktaðar hér á Suðurlandi og þrífast eins vel og grasið á jörðunni. Þó er ekki lögð eins mikil stund á ræktun þeirra eins og vera mætti og ætti.

Það má vera gleðilegt fyrir flytjanda þessa frv., að sjá og heyra, að þeir, sem áður hafa lagst einna þyngst á móti því hafa nú tekið sinnaskiftum og gerst helztu formælendur þess. Mér fundust rök þau, sem hæstv. ráðherra (H. H.) færði á móti flutnm. frv. á þinginu í fyrra, vera heldur léttvæg. En það er gott, þegar menn taka þannig sinnaskiftum og sannfærast um villu sins vegar.