16.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

38. mál, skipun læknishéraða (Hnappdælahérað)

Eggert Pálsson:

Hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) vitnaði í það, að eg hefði skrifað undir nefndarál. í fyrra, sem hefði gengið í líka átt og þetta nefndarálit. Jú, eg kannast við það að hafa undirskrifað þá skoðun, að ef komin væri brú á Jökulsá og dragferja á Þverá, þá væri þörfin til þessa nýja læknishéraðs horfin að mestu. Og hefi meira að segja sama álit enn. En gallinn er sá, að bæði brúna og dragferjuna vantar og líkindi til að hvortveggja komi til að vanta um ófyrirsjáanlega langan tíma. Á síðasta þingi voru samþykt lög um brú á Jökulsá og veitt dálítil fjárupphæð til að setja dragferju á Þverá. Þetta hvortveggja gaf dálitla von í svipinn, en nú er miklu daufari orðin. Það er lítt mögulegt með efnahag landssjóðs fyrir augum, annað en hugsa sér að dráttur muni alllangur verða á því, að brú yfir Jökulsá verði bygð, og hvað dragferjuna á Þverá snertir, þá telur landsverkfræðingur nú öll tormerki á þeim framkvæmdum, svo að kringumstæðurnar eru þannig töluvert breyttar frá því sem var á síðasta þingi. Eg get ekki annað álitið en að stofnun umrædds læknishéraðs væri eftir kringumstæðunum nauðsynleg, að minsta kosti á meðan hvorttveggja, Jökulsárbrúna og dragferjuna á Þverá, vantar. En þótt eg verði að halda fast við þá skoðun að fullkomin nauðsyn hefði verið á að stofna þetta læknishérað, þá má enginn skilja orð mín svo að eg vilji spilla fyrir frv. á þgskj. 42 eða stofnun Hnappdælahéraðs.