25.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

43. mál, stækkun verslunarlóðarinnar á Flateyri

Matthías Ólafsson:

Herra forseti! Þetta er ekkert stórmál og mætir vonandi engri mótspyrnu, svo að eg get sparað mér að vera langorður um það. En svo stendur á, að á þessu svæði, sem farið er fram á að verði bætt við kaupstaðarlóðina á Flateyri, stendur sú eina hafskipabryggja, sem þar er, og auk þess er þar bæði „guano“-verksmiðja og botnvörpungastöð. Það er því alveg nauðsynlegt að stækka kaupstaðarlóðina um þetta svæði — hitt mundi baka viðkomandi mönnum mikil óþægindi — þeim yrði sá einn kostur fyrir hendi að útvega sér sveitaverzlunarleyfis, en það er, að öllu leyti, fleiri óhentugleikum bundið. Það er raunar að eins einn einstakur maður, sem á þetta svæði og hefir farið þessa á leit, en eg hefi spurst fyrir hjá málsmetandi mönnum í héraðinu um skoðun þeirra í þessu efni og þeir hafa allir verið á eitt sáttir, að sjálfsagt væri, að málaleitun þessi næði fram að ganga. Eg hefi með vilja fært takmörkin dálítið lengra út, að utanverðu, en farið var fram á, því eg býst við, að ella mundi innan fárra ára berast ný beiðni til þingsins um stækkun kaupstaðarlóðarinnar.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um frv. Eg vona að það fái góðan byr í háttv. deild og verði vísað til 2. umræðu. Nefnd álít eg óþarfa — málið er ekki svo stórvægilegt.