25.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Á seinasta þingi var borið fram, að tilhlutun kennarafélagsins, hér frv. um stofnun eftirlaunasjóðs fyrir barnakennara. Það frv. náði ekki að ganga fram. Nú hefir það verið orðað við mig að bera fram svipað frv., en við þeim tilmælum get eg ekki orðið Heldur ekki get eg orðið við þeirri tillögu, að tvískifta styrktarsjóð handa barnakennurum, sem stofnaður var með lögum 9. júlí 1909, þannig að Reykvíkingar gætu verið sér. Það mundi leiða til altof mikilla spjalla á sjóðnum, þar sem kennarar í Reykjavík um 40 alls, bera hér um bil/4 hluta af öllum árstillögunum, sem nema um 1.200 kr., enda finst mér og að liggja nær að sameina kraftana hér heldur en sundra þeim. Hvoruga leiðina áleit eg færa. Hinsvegar lofaði eg kennurum því, að eg skyldi gerast flutningsmaður að frumv., sem reyndi að ráða bót á helztu annmörkunum á lögunum.

Í þessu frumv., sem hér liggur fyrir hefi eg gert mér far um það. Eftir lögunum 1909 er gjaldið til sjóðsins skyldugjald, er hvílir á hverjum kennara, hvort sem hann er annarstaðar trygður eða ekki. Hins vegar á hann aldrei heimtingu á að fá nokkuð úr sjóðnum upp í ársgjöld sín, þar sem styrkveiting öll fer eftir sérstöku mati á ástæðum hans. Og hann á sérstaklega enga von þess, að ekkja hans eða börn njóti nokkurntíma nokkurs af ársgjöldum þeim er hann hefir borgað til sjóðsins. Ennfremur voru stjórnendur sjóðsins tilnefndir af landsstjórninni — en kennarar eiga sér þar engan kosinn trúnaðarmann. Loks er tillag landssjóðs ekki nema 1.000 kr.

Mér skilst það fullkomlega ósanngjarnt að ekkjur og börn fái engan styrk úr sjóðnum að kennaranum látnum, enda er það ólíkt því sem á sér stað um aðra sjóði. Eg nefni til dæmis vátryggingarsjóð sjómanna. Þar hafa ekki að eins ekkjur og börn tilkall til styrks heldur og foreldrar og systkini. Þá býst eg við að ekki þyki heldur ósanngjarnt, að kennarar fái sjálfir að ráða nokkru um það, hverjir njóti styrks úr sjóðnum. En eins og nú hagar til, er stjórn sjóðsins tilnefnd beinlínis eða óbeinlínis af stjórnarráðinu. Eg vona að hinni hv. deild þyki ekki ofmælt, þó að farið sé fram á, að kennarafélagið kjósi einn manninn af þremur í stjórnina, einkum þegar tekið er tillit til þess, hvernig til er hagað um vátryggingarsjóð sjómanna. Í stjórn hans tilnefnir stjórnarráðið að eins einn mann, en Útgerðarmannafélagið og Sjómannafélagið hvort um sig einn.

Loks er sjóðurinn of fátækur. Tekjur hans eru nú einar 2.200 kr., 1.200 kr. frá kennurum og 1.000 kr. styrkur úr landssjóði. Það er lítið í hvern stað, þegar milli margra er að skifta. Því er hér farið fram á 1.500 kr. styrkhækkun á ári. Það verður þó minni styrkur en til ýmsra annara sjóða. Landssjóður ábyrgist t. d fyrir vátryggingarsjóð sjómanna 15.000 kr. og Ellistyrktarsjóðirnir fá 50 aura úr landssjóði fyrir hvern gjaldskyldan mann.

Eg vænti þess, að hin hv. deild telji kennarastéttina svo mikils virði, að hún sjái ekki eftir þessum 1.500 kr. til hennar, jafnvel þó að fjárhagur landssjóðs sé ekki sem glæsilegastur. Alþýðukennarastéttin skapar að miklu leyti framtíðina, eða að minsta kosti var það álit Bismarcks á henni. Þegar honum og hernum var þakkaður sigurinn 1871, hafði hann á orði, að sér væri hann ekki að þakka eða hernum, heldur þýzku alþýðukennurunum. Eg á nú ekki við að vér eigum að leggja út í styrjaldir til þess, að vinna þess háttar sigur. En á sigrum þurfum vér engu að síður að halda, vér þurfum að sigrast á sjálfum oss, og á þeim mörgu erfiðleikum sem landið þjaka. Til þess eiga alþýðukennararnir að hjálpa, og eg fyrir mitt leyti hefi þá trú, að þeir geri það því betur, því betur sem farið er með þá.

Eg sé ekki beint ástæðu til að nefnd verði sett í málið, vona að hin háttv. deild leyfi því að ganga til 2. umr.