06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Jón Magnússon:

Eg gat ekki orðið sammála hv. meðnefndarmönnum mínum. Það var ekki vegna þess, að við værum ekki sammála um málið sjálft, heldur greindi okkur á um aðferðina. Þessi lög, sem nú er talað um að breyta voru samin af kennarafélaginu. Alþingi samþykti þau óbreytt, eða sama sem það, eins og það hafði gengið frá þeim. Eg álít heppilegast, að sami vegur væri farinn ef lögunum ætti að breyta. Kennarafélagið á að eiga upptökin að breytingunum. Finst mér því að þetta mál mætti bíða þangað til reglulegt Alþingi kemur saman, þá gæti það farið þessa leið. Hins vegar hefir mér aldrei dottið í hug að kennarafélagið mundi verða á móti þessum breytingum.

Eg get verið samdóma hv. meðnefndarmönnum mínum um það, að launakjör kennara eru yfirleitt mjög bág. Samt er eg ekki viss um að það sé rétt hlutfall, að landsjóður leggi meira til sjóðsins en kennararnir sjálfir, eins og farið er fram á með þessu frv. Það er alveg réttur samanburður, að það er miklu hærri upphæð sem landssjóður leggur til ellistyrktarsjóðsins en farið er fram á, að hann leggi til þessa sjóðs. En það er hlutfallslega minna, því að til ellistyrktarsjóðsins leggur landsjóður ekki nema 1/3% af tekjum hans. Eg skal geta þess, að eg legg ekki neina sérstaka áherzlu á þetta, en mér finst það athugavert, hvort ekki mundi réttara að geyma þetta mál til næsta þings.