06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Mér þykir það leitt, hvað mér gengur illa, nú uppá síðkastið, að verða samferða hv. þm. Vestm. (J. M.). Það er sífelt þessi formaðferð, og nú skilur okkur þó ekkert, jafnvel ekki að forminu til, úr því að kennarafélagsstjórnin hefir lýst sig meðmælta frumvarpinu. Eg kannast við það frá fyrri þingum. Mér finst honum fara þar líkt og þeim grammaticus sem gekk um völlinn, og tíndi upp spörðin, en skildi öll berin eftir. Hv. þm. játaði í nefndinni að 1. og 2. gr. væru báðar góðar. Það var 3. gr. sem hann lagðist á móti og er það merkilegt um bann, jafn brjóstgóðan mann. Þessi sjóður er ekki annað en líftryggingarsjóður, og í hann eru kennarar skyldir að leggja hundraðsgjald af launum sínum. En eins og lögin frá 1909 eru, hafa kennarar ekki minstu von um að fá 10 aura styrk handa konum og eftirlátnum börnum. Og það er í hæzta máta óréttlátt. Eða þykir hv. þm. það ekki hart, ef farkennari sem hefir í mörg ár gegnt starfi sínu með trú og dygð druknar á ferðum sínum, að þá má ekki láta ekkju hans eða börn njóta neins góðs af því sem hann hefir lagt í sjóðinn. Þetta skakka hlutfall, sem hv. þm. talaði um, það er alveg nýtt. Hann mintist þess ekki í nefndinni. Leggur ekki landssjóður meira til eftirlauna hans og mín, og jafnvel til ekkna embættismanna en embættismenn leggja fram í því skyni?

Jæja, eg skal ekki fara lengra út í þessa sálma. Mér þarf ekki að vera þetta neitt kappsmál, eg hefi hvorki beint né óbeint hagnað af breytingunni.

Mótmæli hv. þm. Vestm. (J. M.), sem hann segist enga áherzlu leggja á, en er þó altaf að nauða með, legg eg óhræddur undir dóm deildarinnar.