06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) er misjafnlega heppinn. Það kemur kynlega fyrir að heyra hann nú hallast að 3. gr., sem hann lagðist á móti í nefndinni, en veitast nú að 1. gr., sem hann var samþykkur í nefndinni.

Mér virtist sá höggva, er hlífa skyldi, er háttv. 2. þm. Hún. (Tr. B.) andmælti þessu frv., en háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir tekið af mér ómakið að svara, þó vil eg geta þess, að dómur háttv. þm. um að laun kennara séu viðunanleg er enginn hæstaréttardómur. Einn álítur það viðunanlegt sem annar telur óviðunandi. En þótt kennarar kunni nú að geta dregið fram lífið á launum þeim, sem þeir hafa, þá hrökkva þau vissulega ekki til þess að sjá borgið framtíð kvenna þeirra og skylduliðs.

Sama háttv. þm. (Tr. B.) þótti vera nóg komið úr landssjóði í styrktarsjóð barnakennara, þar sem þegar væru þaðan runnar 8.000 kr., en það er ekki stór upphæð þegar litið er til þess að kennarar skifta hundruðum. Eg hefði ekki talið eftir, ef hagur landssjóðs hefði leyft, þó að upphæð sú, sem háttv. þm. nefndi, væri aukin með 1 núlli. Hér er um að ræða hina þörfustu stétt landsins, og svo mikið lagði Bismarck upp úr kennarastéttinni þýzku, að hann sagði, að henni væru að þakka allir sigrar Þýzkalands á síðustu tímum.

Það tjáir ekki að vísa barnakennurunum til ellistyrktarsjóðsins. Sá sjóður hrekkur ekki nema handa örlitlu broti þeirra manna, sem styrktarþurfi eru. Og það þarf varla að kvíða því, að þeir, sem úthluta úr þeim sjóði, fari að veita kennurunum styrk; þeir munu minnast þess að til er styrktarsjóður fyrir barnakennara.

Það hefir verið lagst á móti 1. og 3. gr. frv. og líklega á einhver eftir að andmæla 2. gr., en eg nenni nú ekki að eltast lengur við útbrot manna, legg það á vald deildarinnar hvað hún vill gera við frv. Deildin hefir heyrt till. kennarastéttarinnar sjálfrar í þessu máli, og ættu þær að líkindum að teljast fult svo þýðingarmiklar sem orð þeirra, sem snúast móti frv., af hvaða rótum sem þau nú eru runnin.