06.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Einar Jónsson:

Eg vil ekki halda því fram, að óþarft sé að bæta kjör manna á þessu landi, eftir því sem hægt er. Það mun vera svo, að þörf sé að bæta hag hvers einasta manns ef hægt væri. En eg álít varlega í það farandi að auka útgjöld landssjóðs á þann hátt sem hér er farið fram á, þar sem vitanlegt er, að hann vantar 700—800 þús. kr. til að standast útgjöldin yfir fjárhagstímabilið. Þá væri heldur vit í því að koma fram með tillögur, sem miða að því að auka framleiðsluna í landinu; við það mundu kjörin batna.

Þar sem hv. þm. Dal. (B. J.) vitnaði í það, hve launin væru lág, þá er þó þar við athugandi, að kjör meginþorra landsbúa eru miklu verri. Fjöldi manna verður að ganga illa klæddur og hefir lítið að bíta og brenna.

Þetta er aðalatriðið, að auka framleiðsluna, þá munu kjörin af sjálfu sér batna, bæði embættismanna og annara.