08.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

115. mál, styrktarsjóður barnakennara

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Það er raunar búið að taka fram flest það, sem eg vildi fram tekið hafa.

Út af því, sem hv. flutnm. breytingartillögunnar sagði, vil eg þó geta nokkurra atriða. Hann sagði við 2. umr., að launakjör barnakennara væru í rauninni viðunanleg. Eg skal endurtaka það sem eg tók fram þá, að þau geta verið nægileg til að draga fram nægjusamt líf meðan starfskraftarnir eru óþrotnir. En þegar kraftarnir þrjóta hafa þeir heldur ekki neitt. Það er úr þessu vandkvæði sem frv. á að bæta. En úr því verður ekki bætt nema landssjóður leggi til drjúgan skerf, því laun kennaranna eru svo lítil að þeir eru ekki aflögufærir um hærra gjald en þeir nú inna af hendi.

Hann sagði að þeir gætu fengið styrk úr ellistyrktarsjóði. Því hefi eg aldrei neitað. En meðan til er sérstakur styrktarsjóður barnakennara, er hætt við að kennurum, sem kynnu að sækja um styrk, yrði vísað á sinn eigin sjóð og aðrir látnir ganga fyrir, því þörfin er mikil, en ellistyrktarsjóðurinn fátækur og ekki hægt að veita öllum styrk, sem hann verðskulda. Að styrkja styrktarsjóð barnakennara miðar þannig óbeinlínis til að veita öðrum styrk úr ellistyrktarsjóði, um leið og það miðar til að létta á fátækrasjóði, því að kennarar, sem ekki gætu fengið styrk af kennarastyrktarsjóði, mundu lenda á hinum almenna fátækrasjóði.

Eg skil ekki að þingmenn hafi ástæðu til að leggja á móti frv., síst sveitaþm. Ekki er gerandi ráð fyrir því, að þeir þoli ekki að sjá hækka í annara aski, þegar af því, að ekki lækkar þar fyrir í þeirra aski. Það er heldur ekki svo mikið, sem hér er farið fram á, 1.500 kr. skift niður á alla gjaldendur í landinu, getur ekki orðið tilfinnanlegur skattur.

Hvernig sem eg velti þessu fyrir mér, get eg ekki séð neina ástæðu til að vera á móti frv.

Eg vona því að 1. gr. fái að standa, ekki síður nú en við 2. umr. Það, sem hefir verið framborið fyrir niðurfellingu greinarinnar, er ekki haldgott.