26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það er engin ástæða til að fara mörgum orðum um frv. þetta að þessu sinni Eg skal aðeins geta þess, að við flutningsmenn frv. komum fram með það samkvæmt ítrekaðri ósk nokkurra kjósenda í kjördæmi okkar. Sjómenn eru óánægðir með lögin um vátrygging fyrir sjómenn frá 30. júlí 1909; þeim þykja iðgjöldin of há. Þessi óánægja á meðal annars rót sína í því, að sjómenn víða á landinu, einkum austanfjalls, í Þorlákshöfn og Eyrarbakka, hafa komið sér upp álitlegum tryggingarsjóðum, sem þeir álíta, að geti komið í staðinn fyrir hina lögboðnu vátryggingasjóði. Eg skal geta þess til skýringar, að frv. á aðeins við sjómenn á opnum bátum og vélabátum. Líkt frv. var til meðferðar á síðastu þingi, en náði eigi fram að ganga. Aðal mótbáran, er fram var færð gegn því, var sú að vátryggingasjóðurinn þyldi eigi þessa lækkun á iðgjöldunum. Eg ber eigi á móti því, að það hafi við nokkur rök að styðjast, að sjóðurinn sé eigi vel stæður nú, eigi sízt þar sem stór slys hafa borið að höndum árlega í seinni tíð. En eg vil benda á, að í þessu frv. eru ákvæði, er muni hafa í för með sér auknar tekjur fyrir sjóðinn. Eg vænti þess, að háttv. deild sýni frv. þann sóma, að vísa því til 2. umr., og þar sem málið þarf vel að athugast, þá legg eg til að skipuð sé 3 eða 5 manna nefnd, til að íhuga það.