26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Matthías Ólafsson:

Þetta frv. er að mínu áliti spor aftur á bak en eigi áfram. Eg hefi orðið var við, að það er almenn ósk sjómanna, að sjóðurinn geti borgað hærri styrk, en þá verða þeir auðvitað líka að borga hærri iðgjöld, enda hefir, þar sem eg þekki til, það verið almennari ósk, að iðgjöldin yrðu hækkuð heldur en að þau yrðu lækkuð. Yfirleitt er þetta frv. alls eigi til þess fallið, að verða að lögum. Það bætir eigi það núverandi ástand, heldur gerir það verra. Og ýmis ákvæði þess eru æði varhugaverð. Eins og t. d það, að ætlast er til, að styrkurinn gangi til úterfingja eins og foreldra og systkina; hann ætti að eins að geta gengið til þeirra, sem sjómaðurinn var skyldur að sjá fyrir. Sömuleiðis er gert ráð fyrir, að hann geti arfleitt aðra að styrknum; það ákvæði get eg heldur eigi felt mig við. — Eitt er enn athugavert í þessu máli og það er, að margir menn fara í sjóinn án þess að borgaður sé styrkur úr sjóðnum til eftirlifenda, vegna þess að lögskráning er gerð að skilyrði fyrir því, að hann fáist borgaður. Fyrir vestan ber það við svo að segja á hverjum degi að maður druknar. Hafi formaður vanrækt að lögskrá hann, þá eru erfingjar hans útilokaðir frá að fá styrkinn.

Í hitt eð fyrra fórst skip frá Patreksfirði, og þegar eftirlifendur eins hinna látnu ætluðu að krefjast árgjalds úr vátryggingarsjóði, þá kom það upp úr kafinu, að hann var eigi vátrygður. Þá hefði mátt lögsækja formanninn fyrir vanrækslu, en hann var þá dáinn og bú hans þrotabú. Þannig er eigi heldur lögskráning nein trygging fyrir að lögin nái tilgangi sínum. Það, sem verður að keppa að, er að koma í veg fyrir það, að nokkur þeirra manna, er sjó stunda, sé óvátrygður; koma í veg fyrir það, að nokkur farist í sjó, án þess að eftirlifendur hans fái styrk úr vátryggingarsjóðnum. En eigi því takmarki að verða náð, þá verða sjómenn að sætta sig við að borga hærri iðgjöld. Sjómömmm verður að skiljast, að þeir verða eitthvað á sig að leggja, ef þeir eiga að sjá borgið skylduliði sínu ef slys ber að höndum.

Eg sé eigi neitt á móti því, að vísa máli þessu til 2. umr., en það þyrfti að athuga það í nefnd og breyta þeim annmörkum, sem á því eru. í efri deild er á döfinni frv., sem kannske mætti bræða saman við þetta.