26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Jón Magnússon:

Eg ætla ekki að tala mikið um þetta frv., flestir hljóta að sjá, nema flutningsmennirnir, að það gengur í öfuga átt. Eg vil að eins benda væntanlegri nefnd á, að þörf væri, eins og farið hefir verið fram á, að breyta lögunum í þá átt, að bæturnar til eftirlifandi vandamanna druknaðra sjómanna yrðu meiri, og sjómenn væri vátrygðir árið um kring.

Það virðist vera rétt að við förum í þessu efni að dæmi erlendra þjóða og leggjum meiri skyldur á útgerðarmenn í þessu efni en gert er. Það er óhæfilegt, að engar bætur komi fyrir druknaðan mann, sem var ótrygður fyrir forsómun útgerðarmanns eða formanns. Það er engin ástæða til að eftirlifandi ættingjar þeirra manna, sem farast og ekki eru sjálfir sök í því að þeir voru ekki trygðir, fái engar bætur. Það er heldur ekki ástæða til að allir eftirlifandi ættmenn fái jafnar bætur, t. d. engin sanngirni í því að ekkja með 5—6 börn fái ekki meiri bætur heldur en síðuerfingjar.

Eg hygg að rétt væri, að væntanleg nefnd íhugi málið vandlega og láti síðan uppi tillögur sínar, sem gætu verið til leiðbeiningar fyrir landsstjórnina.