26.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

46. mál, vátrygging fyrir sjómenn

Valtýr Guðmundsson:

Mér finst þetta mál vera dálítið vandamál, erfitt að greiða atkv. um það eins og það liggur fyrir.

Eg verð að álíta, að breytingar á lögum, sem gripa svo mjög inn í þjóðlífið eins og hin nýju lög frá 1909, um vátrygging sjómanna, eigi ekki að koma frá einstökum þingmönnum. Hætt er við að slíkum breytingum yrði hagað eftir því, sem við á, á hverjum einstökum stað. Þess háttar mál ættu æfinlega að undirbúast af landsstjórninni.

Eg er á sama máli og hv. þm. Vestm. (J. M.) um það, að rétt sé að vísa þessu máli til aðgerða landsstjórnarinnar, en álít vafamál, hvort gagnlegt sé að setja nefnd í það, finst það bara krókaleið, en réttast að vísa málinu strax til stjórnarinnar.

Eg skal því leyfa mér að afhenda hæstv. forseta svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Í því trausti að landsstjórnin taki til athugunar, hvort ástæða sé til að breyta lögum um vátrygging fyrir sjómenn, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskránni.

Hitt, að setja nefnd í málið, er síðan leggi tillögur sínar fyrir landsstjórnina, álít eg bara til að tefja fyrir málinu.