21.08.1912
Efri deild: 31. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jósef Björnsson:

Það má vel vera, að háttv þm. Strand. hafi mikið til síns máls í því, er hann benti á. En líta má þó á það, að í brtill. er farið eftir óskum Barðstrendinga og því, sem þeir telja sjer haganlegast.

Hvað því viðvíkur, að tillagið er ekki tiltekið, þá sje jeg ekkert athugavert við það, tillöguna má vel samþykkja án þess, að það sje gert, því í háttv. Nd. mætti setja inn ákvæðið um tillagið, ákveða það.

Það getur vel verið, að ritsímanefndin hafi kynt sjer það, að brtill. hennar fái góðar viðtökur í Nd.; en þá segi jeg það, að fari svo, að engar nýjar breytingar verði gerðar á frumv., þá er í þessu máli lítið farið eftir þeirri reglu, að láta sanngirni og rjettlæti ráða, því jeg skal enn taka það fram, að það var ekki sanngjarnt, að bæta línunni frá Ölfusárbrú til Vestmannaeyja í 1. flokk, en neita því, að setja Siglufjarðarlínuna í þann flokk. Vestmannaeyjasíminn gefur minni vexti en síminn frá Sauðárkrók til Siglufjarðar, og það stórum mun minni, þegar öll leiðin frá Ölfusárbrú er tekin með, því það eykur miklu við verð línunnar, en litlu við tekjurnar, sem mestar eru í Vestmannaeyjum. Þótt brtill. á þgskj. 348 yrði nú samþykt hjer, mundi hún hvorki skemma frumv. nje vera líkleg til að verða því að falli, enda teldi jeg ekki skaða skeðan, þótt frumvarpið næði ekki fram að ganga í þeirri mynd, sem það nú hefur.