29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Bjarni Jónsson:

Eg stend upp til þess að gera fáeinar sundurlausar athugasemdir um frv. þetta.

Eg er samþykkur hæstv. ráðherra um það, að undarlegt sé, að vér séum að setja lög um Dani, taka það beint fram, að 3 Danir skuli eiga sæti í stjórn þessarar fyrirhuguðu happadrættisstofnunar. Íslenzk löggjöf ætti ekki að skipa fyrir um annað en íslenzk mál, en láti annað afskiftalaust Hér mundi nægja að segja til um það, hve margir Íslendingar skuli skipa stjórn stofnunarinnar, og láta svo ráðast hverrar þjóðar menn hinir yrði.

Háttv. flutningsm. (L. H. B.) gat þess, hví það gegndi, að frv. kveður svo á, að Dönum sé heimilt að selja sína happadrættisseðla hér, en þessu félagi óheimilt að selja sína seðla þar. Ef ástæður eru svo bágar með Dönum, að þeir séu neyddir til að beita oss slíku misrétti, er bezt að lofa félaginu að eiga heima hér, og þá er það nær því að vera íslenzkt en með þeim hætti sem frumv. gerir það úr garði. Eg geri ekki mikið úr þeirri ástæðu háttv. flutningsm., að menn séu svo bráðlátir að vita vinningana, að nota þurfi síma til að birta þá. Birting í blöðum mundi nægja og ekki mundi félagið þurfa að festa upp slík brekán sem tíðkast upp að festa við götur stórborganna eftir hvern drátt. Ef til kæmi, að nota þyrfti síma, þá væri ekki tiltökumál að gera það, nema um meiri háttar happdrætti og mundi það ekki verða mjög dýrt.

Það er ýmislegt fleira sem vert er athugunar og laga þyrfti.

Sérstaklega er mér óljóst það ákvæði frv., er ræðir um stimpilgjald. Mér skilst, að það gjald muni ekki renna í landssjóð, því að eigi höfum vér lög um stimpilgjald. En ef tilgangurinn er sá, að kaupa skuli danskan stimpil og andvirðið þar fyrir renna í danskan sjóð, þá þykir mér sem Danir fái helzt til mikinn arð af fyrirtæki þessu, þegar þess er þó gætt, að eigi má selja happdrættisseðla félagsins í Danmörku. — En vera má samt, að tilætlunin sé, að hér sé hafður íslenzkur stimpill og gjaldið renni þá í landssjóð. Þetta skýrist væntanlega, meðal annars, í nefndinni.

Háttv. flutn.m. (L. H. B.) mintist á það, að gegn þessum tekjuauka legði landið ekkert fram nema nafnið. En hvers virði er nafn Íslands? (Jón Ólafsson: 200 þús. kr. í öllu falli!). Vera má að 200 þús. kr. sé nóg, ef fyrirtækið er Íslandi til sóma. En ef fyrirtækið reynist á aðra lund, til hversu margra peninga mundi þá metast sómi landsins.

Um öll þessi atriði vænti eg mér fullnaðarskýringa í nefndinni.