21.08.1912
Efri deild: 31. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jón Jónatansson:

Jeg stend aðeins upp af því, að jeg í gær hafði skrifað hjá mjer nokkur ummæli, er jeg ætlaði að svara, en fjekk ekki færi á því þá. Það fór, eins og mig grunaði, að það komu engin rök fram gegn brtill. minni, er gætu sannfært mig um, að það væri ekki í alla staði rjett og sanngjarnt, sem hún fór fram á. En það var eitt atriði í ræðu háttv. þm Strand., er jeg vildi minnast á. Mjer skildist, sem honum þætti kenna furðu mikillar ósanngirni í því, að kvarta yfir því, þó að mitt hjerað væri beitt órjettlæti, því að önnur hjeruð væru beitt meiru órjettlæti. Þetta er algerlega rangt hjá háttv. þm. Eitt ranglæti rjettlætir ekki annað ranglæti, enda þótt það kunni að vera stærra.

Annars endurtek jeg það, að í þessu frv. sje ekki gætt þeirrar sanngirni, er skyldi, gagnvart sumum hjeruðum. Og jeg sje enga ástæðu til að knýja þetta mál fram á þingi nú. Jeg sje ekki, að neinn skaði sje á orðinn, þótt það falli.

Háttv, þingm. sagði um brtill. mína, að það væri kátlegt, að hún kæmi fram frá þm. þess hjeraðs, er mest allra hjeraða landsins hefði ausið úr landssjóði. Þetta er gamall söngur hjer á þingi. En mjer finst því varpað fram út í loftið. Það er ekki rjett, að vera að telja það eftir, þótt mikið fje sje veitt til brúagerða í hjeruðum, þar sem stórar ár falla um; brýrnar eru heldur ekki fyrir þessi hjeruð ein, heldur engu síður fyrir allan almenning, er þarna ferðast. Þess verður að gæta, að önnur hjeruð fá stórfje úr landssjóði til strandferða, en þessi hjeruð verða að miklu leyti að vera án þeirra ferða. Það getur vel verið, að mikil ósanngirni sje í því, að önnur hjeruð verða að bíða lengi eftir símasambandi, en hins vegar má þó ofmikil skæklapólitík ekki eiga sjer stað í þessum efnum, og jeg lít svo á, að það sje vafamál, hvort það á að leggja símann út á hvert annnes, þar sem fólkið getur naumast lifað, og þar sem hann er lítið notaður; þar sem samgöngutæki eru viðunandi, í hjeruðum sem hafa verulega framtíðarmögulegleika, verða not símans mest. Síminn á ekki að vera til skemtunar, og hann er meira notaður í fjölmennum hjeruðum, en úti á strjálbygðum annnesjum. En ef til vill væri nær, að leggja hann þangað, en að vera að tvöfalda línur, eins og gert var í Norður-Þingeyjarsýslu í fyrra.

Jeg skat svo ekki deila meira um þetta við háttv. þingm., en taka það fram, að það var ekki hrakið með rökum, að brtill. mín væri rjettmæt. — Og mjer finst frumv. ganga svo skamt í því, sem til bóta horfir, að jeg greiði atkvæði móti því.

Með því ekki tóku fleiri til máls, var gengið til atkv., og var:

Br.till. á þingskj. 348 feld með 7 atkv. gegn 3.

Frumv. sjálft var samþ. með 8 : 3 atkv. og endursendist Nd.