07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Ráðherrann (H. H.):

Eg vildi að eins leyfa mér að skjóta dálítilli bending til nefndarinnar. Mér virðist þurfa að breyta orðalagi á stöku stað.

Í 7. brtill. við 1. gr. e. vill nefndin fella burt síðustu orðin frá „að fyrirmuna“ etc. —, og bæta við „enda sé leyfið notað fyrir 31. desbr. 1913“. Meining nefndarinnar er vafalaust að leyfið missist ef það er ei notað fyrir 31. des. 1913; en orðalagið er mjög óljóst. Menn gætu skilið það þannig, að þetta væri ennfremur skilyrði fyrir því, að hægt sé að taka leyfið aftur eftir 15 ár, auk hins skilyrðisins, að löggjafarvaldi Íslands þyki ástæða til þess, með öðrum orðum, að leyfið verði alls ekki aftur tekið, fyr en eftir 30 ár, ef það er notað fyrir árslok 1913.

Í kafla þeim, sem 10. brtill. er við, er þess getið, að einkaleyfishafar geti notað leyfið sjálfir og selt það á leigu. Þetta verður eigi skilið öðruvísi en hér sé að eins átt við þessa þrjá menn: Magnús Stephensen, Sighv. Bjarnason og Knud Philipsen. En þar sem síðar er ákveðið að þeir skuli hafa fyrirgert rétti sínum ef þeir greiði ekki gjöld sín, þá er að eins skírskotað til þessara 3 manna, en það er auðvitað ekki meiningin, heldur á ákvæðið að ná til hvers sem hefir einkaleyfið. Hér þyrfti því að breyta orðalagi.

Þá þyrfti líka að breyta orðalagi 3. gr., þar sem segir að hluti megi ekki selja í Danmörku; meiningin er auðvitað að ekki megi hafa þar útsölu („Kollektion“), því að ekki er hægt að girða fyrir að privatmenn selji seðla sín í milli.