07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Það er að eins til þess, að þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir styrk þann, er hann hefir veitt mér í þessu máli, að eg stend upp. Það er ekki af því, að eg sé honum sammála um alt það er hann sagði. T. d. gaf hann mér í skyn, að eg hefði lesið upp dóma manna um þetta mál, án þess að minnast á röksemdir þeirra. (Jón Ólafsson: Eg heyði ekki annað en fullyrðingarnar) En rökin las eg upp um leið. Og meira að segja, hann kom sjálfur með ýmsar af þeim röksemdum í ræðu sinni, sem mér þótti óþarfi að telja því til sönnunar, sem allir mega skilja, að hér er um glæfrafyrirtæki að ræða. Þá hugðist hann mundu dauðrota mótbárur mínar með því að segja, að lög sem bönnuðu það, sem hér er verið að ræða um, verkuðu ekki. Mér hefir aldrei dottið í hug, að slík lög yrðu ekki brotin, því að það vill brenna við um flest lög. Eg veit ekki betur en hegningarlögin séu brotin og það oft. Eða má þá ekki setja lög um þjófnað, af því að sumir menn stela? Hv. þingmaðurinn hélt því fram, að fátækt fólk keypti ekki gjarna happdrættisseðla. Ójú, það gerir það.

Á Prússlandi fara fátækir menn þannig að, að þeir slá sér margir saman um einn seðil, þegar þeir bera ekki af því að kaupa seðil hver í sínu lagi, og eru við því reistar skorður með lögum þar í landi.

Eg er mjög þakklátur hv. þm. fyrir margar góðar upplýsingar um uppruna þessara hluta. Hann mintist á veðmálin í enska heiminum, veðreiðarnar, kosningaveðmálin og kauphallabraskið. Alt þetta sýnir og sannar að það hefir verið á rökum bygt, sem eg hefi verið að segja um þetta mál, að það eru illir og ósómasamlegir féglæfrar. (Jón Ólafsson: Þetta er í þeim löndum þar sem lotterí eru bönnuð) Það hefir verið gerð tilraun til að draga úr áhættunni með því, að láta ríkin setja á stofn happdrætti. En merkustu menn sem á síðustu tímum hafa skrifað um það mál, og þar á meðal þeir er eg hefi nefnt hér, dr. Konrad og aðrir, eru eindregið á móti þessari stefnu. Engir mæla henni bót, nema hvað menn reyna að segja, að það sé gagnlegra að ríkin setji skorður við hættunni, með því að gefa mönnum tækifæri til, að reyna áhættuna í lögtrygðum stofnunum. En hvað vinna menn með þessu? Ekki annað en það, að til verða tvær áhættustofnanir, önnur lögleg, hin ólögleg. Menn byrja einmitt á því, að leita hamingjunnar í löggiltu stofnuninni og það er leiðin til þess, að menn fara að leita hennar í þeirri bönnuðu. (Jón Ólafsson: Þvert á móti). Nei, sá sem er orðinn vanur stórum fjárhættuspilum, hverfur ekki til þeirra sem minni eru. Hv. þm. mintist á ummæli mín um tollana. Það er rétt, eg hefi sagt að allir tollar væru löghelgaður vasaþjófnaður. En þó að ranglát lög séu til, er engin nauðsyn á að fjölga þeim. (Jón Olafsson: Mala necessaria) Það er undarlegur lofköstur sem þeir menn hlaða þessu landi, er hafa slíkar grundvallarreglur.

Orð mín til svars hv. frsm. (L. H. B.) um kaup Íslendinga og útlendinga á þessum happdrættisseðlum, tók hv. þm. í alt öðru sambandi en eg sagði þau. Háttv. framsögum. lagði mikla áherzlu á, að Íslendingar væru varðir með því, að hér á landi mætti ekki selja nema eina 1000 seðla. Þá svaraði eg því til, að það væri að græða á ósómasamlegan hátt, að taka það af útlendingum, sem menn samvizku sinnar vegna geta ekki tekið af landsins eigin börnum. Einstakir menn hugsa um það, ef þeir leggja út í eitthvert fyrirtæki, hvort það muni vera sóma þeirra samboðið. Það er ekki ætíð fljótfengnasti gróðinn, sem er beztur. Þetta gildir jafnt um þjóðirnar og einstaklingana. Og eg fyrir mitt leyti vil heldur vita blett á einstökum manni, en á þjóðinni í heild sinni.

Höfundur móðurmálsbókarinnar talar undarlega hluti um íslenzkuna. Hann heldur því fram, að málið spillist ekkert, þó að útlend orð séu tekin upp í það. En mér er spurn, er ekki málið sett saman úr einstökum orðum? Og er það engin skemd á málinu, ef öll orðin eru útlend? Og hvernig á að reisa skorður við því, að svo verði, ef allir þessir skriffinnar sem „skrifa til að lifa“, mega gleypa í sig bjöguð orð og bjagaðar slettur, hvar sem þeir heyra þær eða sjá. Hvað verður úr málinu annað en eintómur hrærigrautur bæði í setningaskipun og öðru? (Jón Ólafsson: Vesalings Snorri Sturluson) Það var svo sjaldgæft að Snorri Sturluson notaði útlend orð, að hann þarf ekki að hafa þingm. fyrir málaflutningsmann. Annars vil eg flytja lof þessum sama hv. þm. fyrir það, að hann hefir alla æfi lagt mikla áherzlu á, að finna ný íslenzk orð yfir nýjar hugmyndir. Hann á skilið þakkir fyrir mörg nýyrði er hann hefir gert. Eg nefni til dæmis orðið kvikmyndir, sem er ágætt orð. En því vill hann nú ekki kalla „lotteri“ happdrætti ? Hefir ekki þessi sami maður gert fjöldamörg nýyrði, er hann þýddi „Um frelsið“ eftir Stuart Mill. Aftan við bókina er orðasafn á nokkrum blaðsíðum yfir þau. Því í ósköpunum gerði hann sér þetta ómak, því notaði hann ekki ensk, þýzk eða dönsk orð sem til voru yfir þessar hugmyndir? En nú má hann ekki vera að því að taka við þessu eina nýyrði sem að honum er rétt. Hv. þm. rangfærði eitt er eg sagði til svars háttv. framsögum. Eg sagði að í lögum frá Alþingi væri talað um „metrakerfi í mæli og vog“ og hélt því fram, að slík endileysa mundi ekki hafa sézt, ef metir hefði fengið að heita stika.

Það kemur ekki þessu máli við, að stikan hefir haft ýmsa lengd, það vissu fleiri og þögðu þó. Menn vita þó um stikuna ,að hún er lengdarmál en ekki þyngdar. (Jón Ólafsson. Eg talaði ekki um það) Ef hv. þm. afneitar orðum sínum þá þarf eg ekki að svara þeim. Eg endurtek þakklæti mitt til hv. þm. fyrir það, að hann studdi mitt mál svo rækilega, því að öll rökin sem hann færði, færði hann á móti sjálfum sér