07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Framsögum. meiri bl. (Lárus H. Bjarnason):

Eg varð að fara út og hefi því ekki heyrt alt sem fram hefir farið. Þó heyrði eg að háttv. þm. Sfkj. (V. G.) tók ýmislegt fram, er eg hafði ætlað mér að segja. Eg býst því eigi við að geta svarað öllu, enda engin ástæða til að kveða niður aftur það sem einu sinni er kveðið í kútinn, þó að upp sé tuggið aftur og aftur. Það er ofboð erfitt að rökræða praktisk mál við háttv. þm. Dal. (B. J.) Ekki fyrir það að hann hafi ekki næga skynsemi, heldur af því að hann brúkar svo mikið hjartað en síður höfuðið, og þó er það einmitt höfuðið en ekki hjartað, sem á að ráða sannfæringu manna um praktisk mál. Lotterímálið er ekkert tilfinningamál, það er gersamlega laust við alla tilfinningu. Fyrir mér er það ekkert annað en praktiskt mál, stórt og örugt gróðafyrirtæki fyrir landssjóð. Hér má ekki selja nema 1.000 hluti á missiri, hvern á 150 franka. Íslendingar gefa því í lakasta falli út 150.000 franka eða 108.000 kr. á missiri, en vinna af því aftur 70% eða um 75.000 kr. og töpuðu landsmenn þá ekki nema 35.000 kr. En í móti þessu fengi landssjóður 138.000 franka á missiri eða 100.000 kr. og geti jafn yel fengið um 270.000 fr. eða um 194.000 kr. Það er því siður en svo, að þetta sé hættuleg „spekulation“.

Þá er nafnið á þessari stofnun happdrætti. (Bjarni Jónsson: Gott að það lærist). Eg held að háttv. þm. Dal. (B. J.) sé ekki sýnt um að mynda nýyrði. Hann nefnir eitthvert Hetverjaland í nefndarálitinu sínu. Tveir íslenzkufróðustu þingmenn deildarinnar hafa gefist upp við að skilja það. Annar gat þess þó loks til að það mundi eiga að tákna Hessen. Annað dæmi miður fallegs nýgervings h. þm Dal. er orðið hlutsölumaður fyrir Kollektör, því má ekki kalla slíkan mann hlutsala sbr. kjötsali.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði aftur, að vér gætum ekki sett lög um lotterí, sem giltu fyrir Danmörku. Háttv. þm. má þó muna það, að honum var fyrir nokkrum mínútum bent á það, að vér höfum sett lög um danskar stofnanir, eins og t. d. um málskotsfrest til hæstaréttar, ríkisráðið o. fl.

Sami háttv. þm. sagði og, að óheppilegt væri, að leyfið væri bundið við nafn, það mundi geta valdið vandræðum, ef einhver leyfishafa félli frá. Hv. þm. Sfjk. (V. G.) hefir svarað þessu, en eg skal þó bæta því við, að eg hefi hugsað mér að skjóta því inn við 3. umr., að noti leyfishafar ekki leyfið innan tiltekins frests, þá sé ráðherra heimilt að veita leyfið öðrum.

Háttv. þm. fór að segja sögu úr nefndinni. Söguburður þykir aldrei fallegur, en því ljótari, ef sagan er ekki rétt hermd. Eg vil bera það undir alla hv. nefndarmenn, hvort eg hermi ekki rétt frá, að þeir hafi verið spurðir af leyfisleitendum, er kvaddir voru á fund með nefndinni, hvort nefndarmenn vildu ekki leggja frekari spurningar fyrir þá. Hv. þm. Dal. (B. J.) svaraði því neitandi eins og aðrir nefndarmenn og kvaddi gesti vora með þökkum.

Hann sagði, að það væri ósamræmi hjá mér að þykjast vilja afla landssjóði sem mestra tekna, en geta þó ekki gengið að því, að 10% renni í landssjóð. Eg vildi það feginn, en það yrði ekkert úr lotteríinu með því móti og því tek eg það sem hægt er að fá.

Sami háttv. þm. sagði enn fremur, að öll önnur lönd legðu hærri skatt á þess konar stofnanir en hér væri farið fram á. Eg þori nú ekki að deila um það við viðskiftaráðunautinn, eg hefi ekki rannsakað það. En það væri ekkert undarlegt þótt svo væri, vegna þess að önnur lönd leggja sig sjálf fram sem markað, en það gerum vér ekki. Einnig er þess að gæta, að í öðrum löndum mun hvergi vera ákveðið neitt lágmark, sem slíkar stofnanir greiði til ríkissjóðanna. En hér er það ákveðið, og skiftir það miklu.

Sami háttv. þm. var að tala um að eftirlitið mundi ekki verða nægilegt úti í Khöfn. Það lægi nær að telja fullmikið borið í eftirlitið, en að telja það of lítið, þar sem eftirlitsmennirnir eiga að verða 6 í Khöfn og allir útnefndir af ráðherra. En um það, að Danir séu í nefndinni og að ekki megi selja seðla í Danmörku eða nýlendum Dana, er það að segja, að lítil mundi von til að frv. yrði staðfest, ef svo væri eigi tilskilið. Dönum mundi ekki annars kostar þykja gætt, sem skyldi, hagsmuna beggja dönsku lotteríanna.

Viðvíkjandi athugasemdum hæstv. ráðh. (H. H.) um frv., þá get eg þess, að þær munu athugaðar til 3. umr.

Að svo mæltu leyfi eg mér að leggja það til, að hv. deild samþykki brtill. meiri hluta nefndarinnar og síðan frv. þannig breytt. Deildin vinnur landinu þarft verk með því, hlýfi landsmönnum með því móti við þungum álögum.