07.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Eggert Pálsson:

Eg skal ekki vera eins langorður og hinir aðrir hv. þm., sem talað hafa. Mér virðist þetta mál vera svo ósköp einfalt, þótt það sé stórmál kallað. Spurningin er ekki önnur en sú, hvort þm. vilja stuðla að því, að tekjur landssjóðs séu auknar, án þess að íbúum landsins sé að nokkru íþyngt. Þegar nefndin hafði þetta mál með höndum, þá vakti það eitt fyrir henni, að reyna að það gæti gefið landssjóði sem mestar tekjur að unt væri. Og árangurinn af því er orðinn sá, að árgjaldið hefir verið hækkað úr 2% upp í 4%, án þess þó að lágmarki gjaldsins í landssjóð yrði breytt. Lengra varð leyfishöfum ekki þokað. Við höfðum þá til viðtals í nefndinni og á undirtektum þeirra skildum við, að þeir mundu hætta við alt saman, ef farið væri fram á hærra ársgjald en gert er nú í brtill. nefndarinnar. Við vildum því ekki halda málinu meir til streitu, einkum þar sem lágmarkið, 138 þúsund frankar, tvisvar á ári, átti að fá að halda sér.

Hvað viðvíkur þeirri vansæmd sem hv. framsögum. minni hlutans (B. J.) er að tala um að við gerum okkur með því að samþykkja þetta frumv., þá get eg ekki séð að við þurfum að láta okkur annara um sóma okkar en önnur lönd — og okkur ferst það sannarlega ekki að setja okkur upp á háan hest, einkum nú á þessum tímum, þar sem við þurfum svo nauðsynlega á peningum að halda í landssjóðinn.

Annars stóð eg ekki upp til að tala um frumvarpið sjálft, því að afstaða mín til þessa máls var fastráðin þegar áður en þessar löngu umræður hófust — og svo hygg eg að verið hafi um fleiri hv. þingm. Það var vegna ágreinings milli hv. þm, Dal. (B. J.) og hv. 1. þm. Rv. (L. H. B.) að eg tók til máls. Hv. þm. Dal. sagði í fyrstu ræðu sinni, að þeir menn, sem sótt hafa um einkaleyfið til stofnunar peningalotterís og kvaddir voru á fund nefndarinnar, hafi gengið af fundi áður en þeir lykju svörum sínum við spurningum þeim, er fyrir þá voru lagðar. Þetta er ekki rétt hermt. Það er öllum mönnum kunnugt, að þessir menn eru svo kurteisir, að enginn mun ætla þeim það, að rjúka burtu án þess að svara öllum spurningum nefndarmanna. Það hlýtur því að liggja í orðum hv. þingm. Dal., að hann hafi verið einhverju ofbeldi beittur, þannig að hann hafi ekki, sem minni hluti, fengið leyfi til þess að koma fram með allar þær fyrirspurnir, er honum lágu á hjarta. En því fór fjarri. Mennirnir spurðu einmitt áður en þeir fóru, hvort enginn nefndarmaður vildi koma með frekari fyrirspurnir. Þar lá á valdi hvers nefndarmanns sem var, að koma með sjálfstæðar spurningar. En þeir kváðu nei við. Þetta get eg, sem formaður nefndarinnar vottað. En hitt efast eg ekki um, að kannske hafi búið einhverjar athugasemdir í brjósti háttv. þingm. Dal. — en hann kom ekki fram með þær þá — enda sumar hverjar sennilega þess eðlis, að undarlegt hefði verið að leggja þær fyrir leyfisleitendur — svo sem t. d. hvort sóma landsins væri ekki misboðið með stofnun þessa lotterís.

Að svo mæltu sé eg ekki ástæðu til að tala frekara um málið, enda er það þegar þaulrætt, og eg ætlaði mér aldrei annað en að leiðrétta þessa frásögn hv. þm. Dal. (B. J.).