09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Frsm.meiri hl.(Lárus H.Bjarnason); Það er í rauninni óþarfi að fjölyrða um br.till. þær er fram hafa komið. Br.till. á þgskj. 181 og 184 eru allar frá nefndinni og flestar eingöngu orðabreytingar. 1. br.till. á þgskj. 181 er að eins orðabreyting; oss þykir fara betur á að raða setningum þannig hugsunarsamhengið verður gleggra. 2. brtill. er að nokkru leyti orðabreyting, en jafnframt að nokkru leyti efnisbreyting. Að svo miklu leyti sem hún er aðeins orðabreyting kemur hún fram að tilhlutun hæstv. ráðherra (H. H.) er benti á, við 2. umr., að orðalagið gæti valdið misskilningi. En auk þess breytir hún efni frv. með því, að með henni veitist ráðherra heimild til að veita öðrum leyfi til að stofna lotterí hér, ef hinir nafngreindu menn hafa ekki notað leyfið innan tiltekins tíma. Ennfremur er stofnfresturinn styttur með br.till. um 3 mánuði, fluttur frá 31. des. til 1. okt. Við síðustu umræðu var það orðað að leyfisleitendur mundu treysta sér til að stofna lotteríið fyrir 1. júli 1913, en 1. október varð þó ofan á eftir nánari íhugun leyfisbeiðenda, enda leggur nefndin nú til (á þgskj. 184) að lögin gangi fyr í gildi en venjulegt er, sem sé þegar er staðfesting þeirra er birt í B. 3. br.till. á þgskj. 181 er orðabreyting fram komin að tilhlutun hæstv. ráðherra (H. H.). Hann áleit að misskilja mætti orðalag 2. málsgr. 1. gr. e, þannig að ákvæðið:

„en þeir hafa fyrirgert“ etc, ætti að eins við þá upprunalegu leyfishafa. Verði orðalaginu breytt eins og við leggjum til, nefnilega í „Leyfishafar fyrirgert“ etc. Þá er a. m. k, ekki hægt um að villast að hér er átt við alla leyfishafa á hvaða tíma sem er, svo sem til var ætlast og raunar lá í orðunum. — 4. og 5. brtill. eru báðar eingöngu orðabreytingar, og í rauninni 6. br.till. líka, um að í stað: „utan ríkis“ komi „utan Danmerkur og nýlenda hennar“. Hv. minni hl. nefndarinnar, þm. Dal. (B. J.), amaðist við þessum orðum við síðustu umr. og komum við því fram með þessa br.till. til að firra hann hræðslu við nýjar innlimunartilraunir. Eg hélt satt að segja, að við mundum verða lausir við óværð af hans hendi ef látið væri af að minnast „ríkisins“, en reynslan sýnir að það á ekki að takast. Br.till. hans á þgskj. 183 sýna að hann er enn ekki ánægður. Þær sýna að hann leggur sig í framkróka til að koma frv. fyrir kattarnef. Annars sé eg ekki betur en að samskonar till. hafi komið fram og verið feld hér áður, og sé svo, þá er það brot á þingsköpunum, að hún er látin koma fram aftur nú. Eg skýt þessu að eins til hæstv. forseta, án þess eg vilji gera frekari rekistefnu út úr því. Annars þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessum br.till. háttv. þm. Dal. (B. J.). Eg hefi áður tekið það fram, að ástæða meiri hluta nefndarinnar til að vilja ekki, að seðlar lotterísins séu seldir í Danmörku er eingöngu sú, að að öðrum kosti mundi frumv. hætta búin. Það er ekki óhætt við að frv. yrði synjað staðfestingar ef lotteríinu væri ætlað að keppa við ríkislotteríið danska og nýlendulotteríið. Af sömu rótum er og hitt sprottið, að við viljum ekki að bannið gegn sölu útlendra lotteríseðla nái til danskra lottería. Danska ríkið hefir mikinn arð af lotteríi sínu og stjórnin danska mundi tæplega láta sér lynda að seðlar þess væru útilokaðir frá íslenzkum markaði. Sömuleiðis er hætt við að menn eins og Richelieu og Heide, sem eru aðalmennirnir í nýlendulotteríinu, mundu reyna að bregða fæti fyrir þetta frumv., ef þeim væri meinað að selja seðla hér.

Mér þykir það einkennilegt, að háttv. þm. Dal. (B. J.) sem taldi lotterí féglæfra, skuli nú vilja fela núverandi ráðherra, sem hann hefir ekki alt af borið mikið traust til, að leyfa að selja megi jafnt alla seðlana, 50.000 talsins hér á landi! Meiri hluti nefndarinnar vill, að löggjafarvaldið, alþingi í samráði við konung, ákveði hversu hátt markið fyrir sölunni megi vera, enda leggur meiri hlutinn fast á móti báðum br.till. þremenninganna. Mér þykir leitt að þeir hafa ekki viljað fylgja meiri hlutanum í þessu, það því fremur, sem 1 af nefndarmönnunum hafði verið orðaður „foringi“ þeirra.