09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson); Við síðustu umræðu þessa máls fór eg nokkrum orðum um hvers eðlis það væri, en talaði ekki um undirbúning þess. Það dettur inn á þingið fullkomlega óundirbúið. Enginn hefir um málið hugsað, og engar fullnægjandi bækur eru hér er menn geta fræðst af um það. (Jón Ólafsson:

Nægar til!) Undirbúningsleysið sést meðal annars á því, að lögin eru þýðing á lögum fyrir danskt happdrætti, „Kolonial-lotteri“. Þeim er að eins vikið við á fáum stöðum, t. d. er opnað sæti handa gæðingum landsins í stjórn happdrættisins, þar sem stjórnendur eiga að vera 6 og þar af 3 Íslendingar. Eg get ekki séð að þingmönnum hafi gefist nokkur kostur á að kynna sér þetta mál. Eg talaði síðast um skaðsemi slíks fyrirtækis. Eg endurtek það nú, að slíkt happdrætti er afarskaðlegt, og er það ekki mín skoðun einsamals, heldur margra mestu fjármálamanna Norðurálfu. Enginn má halda að eg vilji halda mér sjálfum fram sem átrúnaðargoði. Í enska heiminum eru happdrætti talin hin mesta óhæfa. Afleiðingin af því að Ísland ljær nafn sitt til að leppa slíkt fyrirtæki, verður óhjákvæmileg sú,að landið missir álit og traust í útlöndum; lánstraust mundi þverra, og mundi þetta vega meir en sá hagnaður sem við gætum haft af fyrirtækinu. Enda er sá hagur ekki neitt tröllaukinn, því að árgjaldið getur ekki orðið hærra en 432 þús. kr. ef hver seðill selst.

Svo er eitt, ráðherra er gefin heimild til að leyfa að selja megi hér á landi 1.000 seðla af hvorum flokki. Það geta þá orðið 300.000 kr. sem selst fyrir hér, með góðu leyfi, fyrir utan það sem selt getur orðið óleyfilega. Þegar ekki er reist rönd við þessu, mega allir sjá, hversu mikið landsmenn myndu á þessu græða, hvað sem landssjóði líður. Auk þess mundu menn venjast á slík áhættuspil og má það telja illa farið. '

Hv. framsögum. meiri hl. (L. H. B.) talaði um að erfitt mundi verða fyrir mig að gera skiljanlega, fyrir öðrum en sjálfum mér, ástæðuna til að taka burt ákvæðið um að ekki megi selja hér nema 1.000 seðla. Eg vildi með þessu koma í veg fyrir, að það stæði í lögum frá Alþingi að ekki megi selja nema 1/50 í landinu sjálfu. Þegar eitthvert erlent verzlunarfélag vill njóta einhverra réttinda hér á landi, þá fær það vanalega íslenzka menn til að ljá nöfn sín. Slíkir menn eru almennt kallaðir leppar, og hefir það aldrei verið álitið göfugt nafn eða heiðarleg vinna. Ef þetta er látið standa, er leppsbrennimarkið óafmáanlega sett á íslenzku þjóðina. Eða getur nokkrum manni þótt það sómasamlegt að lána nafn landsins til að hægt sé að fara í kring um lögin í öðrum löndum.

Það er þess vegna sjálfsagt að samþykkja brt. okkar, að ráðherra ákveði hvernig haga skuli hlutsölunni hér á landi.

Svo leggjum við líka til, að bannað sé að selja hluti nokkurs annars peningalotterís hér á landi.

Þó ráðherra leyfði að selja hér 2.000 seðla eða meira, yrði það ekki meira en þessir 1.000 seðlar, sem frv. heimilar, að viðbættu því sem selst frá hinu svokallaða Kolonial-lotteríi, og Klasselotteri. Enda má eftir lögum þessum selja hvern seðil þeirra hér á landi, ef þeir ganga út.

Að það geti komið til greina, sem framsögum. meiri hl. (L. H. B.) talaði um, að einhverir málsmetandi menn í Danmörku myndu koma í veg fyrir konungsstaðfestingu ef þetta væri bannað, get eg ekki skilið. Væri þetta mótgerð móti Dönum, myndi það vekja óvild í öðrum löndum móti lögunum. Og þeir myndu þá borga okkur í annari mynt, ekki þægilegri.

Frá sjónarmiði meiri hluta nefndarinnar ætti að vera nóg að leyfa þessum mönnum að hafa drættina hvar sem þeir vildu, hvort heldur í París eða Hamborg, en ekki einskorða það við Kaupmannahöfn. Væri það þá leyfishafa, að fá sér leyfið þar.

En eins og eg hefi áður tekið fram við fyrri umr. þessa máls, álít eg þessa happdrættisstofnun vera landinu til ósóma og fjárhæðina svo litla, að ekki sé gerandi að láta landið stofna sóma sínum í tvísýni fyrir svo lítið.

Eg vil því leyfa mér að skora á alla þá, sem atkvæði eiga um þetta mál, að fella það, eða að öðrum kosti samþykkja þær brt., sem við höfum komið fram með.