09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

51. mál, íslenskt peningalotterí

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla mér alls ekki að fara að svara hv. þm. Dal. (B. J.) yfir höfuð. Hann hefir nú ekki fært fram annað en sömu innantómu orðin og við síðustu umræðu, sögð með sama sjálfsánægju-smjörbrosinu og sama spekingssvipnum. Því var öllu svarað með rökum þá, og er óþarfi að endurtaka það nú.

En það er að eins ein fullyrðing hans, sem eg vildi leiðrétta. Hann sagði að svona mál hafi aldrei legið fyrir þinginu. En eg minnist þess að fyrir 111) árum var frumv. um stofnun lotterís flutt inn á þing. Það var að mig minnir 1905.

Annars skal eg ekki lengja umræðurnar. Eg sé nú að það hefir verið laumað blaði á borðið hjá mér meðan eg var að tala. Það er ef til vill „innlegg“ í málið:

Að horfa á ’hann er helvíti,

að hlusta á ’hann er kvalræði,

að hleypa á ’hann væri hollræði,

að hengja’ ’hann væri snjallræði.

1) Þannig mismælt af mér, og því ekki leiðrétt hér til rétts máls.

J. Ó.