29.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

52. mál, Grundarkirkja

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Háttv. þm. hefir ekki tekist að tala þm. inn í salinn, enda mun bannmálið í efri deild draga athygli þeirra meira að sér, en það mál sem hér er til umr.

Eftir því sem mig minnir, koma andmælin úr sama horninu og á seinasta þingi, enda er mönnum kunnugt um það, að þessi hv. þm. er ekki svo viðkvæmur, þegar um kirkju- og trúmál er að ræða, að hann vilji leggja mikið í sölurnar þess vegna.

Háttv. þm. virtist gera svoddan veður út af því er eg sagði, að með auknum tekjum kirkjunnar, sem fram á er farið með frv, mundi þó ekki gera betur en kirkjan héldist vel við, en þetta er ekkert annað en ein sönnun þess, að tilgangurinn er ekki sá að fara að endurgreiða eiganda kirkjunnar það fé sem hann hefir lagt fram. Það er rangt hjá háttv. þm., að frv. þetta geti orsakað það, að landssjóði aukist byrði þegar kirkjan fer að ganga úr sér, eða eyðileggjast — vegna þess, að þessi kirkja er ekki landssjóðseign. Hún er bænda-kirkja og eign Magnúsar á Grund, og það er hans skylda að kirkja sé á staðnum, en í hvaða ástandi hún er hefir hið opinbera lítið vald á og skylda hann til að halda við þessu stórhýsi er vitanlega ómögulegt. En hér er alls ekki verið að skylda landsjóð til neins. Það sem farið er fram á er aðeins sú sanngirniskrafa, að þessum manni sé sýndur dálítill viðurkenningarvottur með því að létta af honum árlegum kostnaði um nokkurt árabil, sem þó eingöngu er fyrir hið opinbera, eða styður að almennu kirkjulífi Annað ekki. Það er ekki nema fálm út í loftið, að hér sé nokkur hætta á ferðum. (Jón Ólafsson: Er ekki hætt við að verði komið til landssjóðs seinna eins og nú til að biðjast hjálpar til þess að geta staðist kostnað.) Slíkt þarf ekki að óttast af því, að með þessu er fengin trygging fyrir viðhaldinu, en alls ekki farið fram á nokkra greiðslu af þeim 23.000 kr. sem Magnús hefir lagt til byggingarinnar úr eigin vasa.

Annars var ekki neitt í ræðu háttv. þm. sem var nokkuð nýjabragð að, svo eg sé ekki ástæðu til að svara honum fleiri orðum, en vona að háttv. deild veiti frv. fylgi.