31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

52. mál, Grundarkirkja

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Það er talað um að hér sé verið að fara krókaleiðir, en eg sé ekki að það skifti neinu máli hvor leiðin farin er. Okkur fanst nú þetta jafnvel minni krókaleið, þar sem prestar fá laun sín úr prestlaunasjóði hvort sem er. (Jón Ólafsson: Nei, þetta er að dylja það, sem verið er að gera) Það er ósatt. Eg skal játa það, að það væri enn einfaldara, að ákveða upphæðina á fjárlögunum, en það fékst ekki á síðasta þingi, enda man eg ekki betur en hv. þingmanni S. Múl. (J. Ó.) þætti það líka krókaleið. Sem sagt verða að líkindum allar leiðir í samskonar málum, krókaleiðir.

Um Þingeyrarkirkju er mér ókunnugt, en eg hygg að slík verk sem hér er um að ræða séu góðra gjalda verð, Þessir menn hafa viljað reisa söfnuðunum kirkjur, drottni til dýrðar og fólkinu til ánægju, en ekki, bæði forsjóninni og fólkinu til hneykslis. Annars held eg sé rétt að geta þess, hvað Magnúsi á Grund hefir flogið í hug, fari svo að þessari litlu ósk hans verði neitað. Honum hefir þá dottið í hug að bjóða söfnuðinum að taka við kirkjunni. En hvernig fer þá, ef söfnuðurinn neitar boðinu, af því að hann hann vill ekki leggja þann kostnað á sig að halda kirkjunni við. Þá hefir honum dottið í hug að bjóða biskupi að taka við henni fyrir landsins hönd, án nokkurs verulegs endurgjalds, en þá mundi ganga sem svarar prestsmötunni, til viðhalds kirkjunni í framtíðinni. (Jón Olafsson: Þá yrði hann að gefa Grundartorfuna um leið) Þetta geta þeir sagt sem ekki eiga hana, og geta því ekki gefið hana.

Þá hefir hann út úr þessu varpað því fram, að komið gæti til mála að leggja Grundarkirkju niður, til þess að hinar kirkjurnar í grendinni, sem eru fremur hrörlegar, og minna þurfa sér til viðhalds, geti hangið sem lengst uppi.

Loks hefir hann hreyft því, að ef alt um þrjóti, þá væri máske gerandi fyrir sig að slá upp litlum kirkjuhjalli, svipuðum og þar var áður, en nota núverandi kirkju til einhvers þess, sem gæfi arð húsinu til viðhalds. Það sjá allir hve óhafandi þetta er, og hve mikið fé þá tapast, þar sem hins vegar er fyrirsjáanlegt að Grundarkirkja mundi eftir fá ár koma að fullum notum, þegar sóknirnar sameinast og hún fær frá sóknararmönnum nógar tekjur. Hér er aðeins farið fram á að þetta fé leggist til viðhalds kirkjunni, en alls eigi hitt, að maðurinn, sem hér er um að ræða, fái neina gjöf eða endurgreiðslu á framlögðum þúsundum.

Hv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) spurði hve marga dilka þetta mundi draga á eftir sér. Eg held alls engan, því að þetta er alveg einstakt fordæmi. Eg þekki engan, sem hefir gert neitt þessu líkt. Og þó svo væri að til væri fleiri slíkir, væri það þá frágangssök, að hið opinbera legði eitthvað fram þegar þeir ættu í hlut? Nei, meðan vér höfum kirkju- og kennilýð í þessu landi, þá álít eg það alveg ósæmilegt, að kasta frá sér án minstu viðurkenningar, slíkri fyrirmyndar starfsemi, sem eingöngu er unnin þeim málum til vegs og sóma.