12.08.1912
Efri deild: 22. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

16. mál, verslun og veitingar áfengra drykkja á Íslandi

Steingrímur Jónsson (framsögum.):

Getið var um það við 1. umr., í hvaða tilgangi frumv. þetta væri borið fram. Tilgangurinn var, að stemma stigu fyrir ólöglegum vínveitingum og ólöglegri vínsölu, sem aðallega hefur átt sjer stað hjer í Reykjavík. Nefnd sú, er kosin var til að íhuga þetta frv., lítur svo á, að tilgangurinn sje góður og mikilsverður, og varhugavert sje, að fella þetta frumv., þó agnúar væru á því, eins og það kom fram frá Nd. — Ýms atriði voru þannig löguð, að frv. mátti alls ekki verða að lögum, eins og það var þá.

Það er erfitt að löggefa um þetta efni, svo að gagni megi koma, og jafnframt án þess að skerða athafnafrelsi manna, og það svo mjög, að hætt er við, að menn vilji fara kring um lögin. — Niðurstaðan hjá nefndinni varð sú, að ráða hinni háttv. deild til, að samþ. frumv. með nokkrum breytingum.

Breytingarnar ganga í þá átt, að gera frv. ekki eins hart í garð einstaklinganna, gera það svo, að það krenki sem minst athafnafrelsi manna, en nái þó tilgangi sínum. Slíkar breytingar telur nefndin nauðsynlegar á frv.; þær koma líka vel heim við hina upprunalegu hugsun flutningsmanns. Annar tilgangurinn með breytingum nefndarinnar er, að gera ákvæði frv. ljósari og tilganginn ótvíræðari, sem sje þann, að stemma stigu fyrir ólöglegum vínveitingum og vínsölu, þeim vínveitingum, sem ólöglegar eru eftir lögunum frá 18. nov. 1899, en sá tilgangur er ekki ljós í frv., eins og það kom frá Nd. Fremur virðist það, eins og það var þá, eiga að koma í veg fyrir allar veitingar, og jafnvel alla víndrykkju.

Um hinar einstöku breytingartillögur hef jeg ekki mikið að segja. Í frv. var svo kveðið á í 1. gr., að ekkert fjelag má hafa um hönd áfengisveitingar eða áfengisdrykkju innan fjelags nema með leyfi lögreglustjóra. — Þessu vill nefndin breyta, og gera það ljóst, að hjer er að eins átt við fjelög, sem hafa fastan fjelagsskap og föst heimkynni; en ekki fjelagsskap manna, sem t. d. hittast úti á víðavangi.

Lögin eru að eins til þess, að koma í veg fyrir, að áfengissala sú sje framkvæmd, sem bönnuð er meðlögunum frá 1899; og tel jeg það jafnvel að mínu leyti vera í harðara lagi. Nefndinni finst og ástæða til, að ákveða hvað skyldi teljast áfengi. Ekkert var ákveðið um það í frumv., og lögin standa ekki í svo nánu sambandi við bannlögin, að þess sje ekki þörf. Menn gætu skilið lögin, eða lagt þau út á þann hátt, að allt sje áfengi, sem áfengisvott inniheldur. En lögin eru ekki framkvæmanleg, ef þau eru skilin á þann hátt. Því vill nefndin ákveða það áfengi, sem inniheldur 21/4% vínanda að rúmmáli, og er það hið sama, sem lagt er til grundvallar í bannlögunum.

Þá eru verulegar br.till. við 2. gr., sjerstaklega við niðurlag greinarinnar. Það stendur í frv. frá Nd., að lögreglustjóri megi leyfa áfengisnautn í samsætum einstakra manna. En þar er að líkindum meint, þegar samsætin eru haldin í veitingahúsum, en ekki þegar þau eru haldin í húsum einstakra manna. En þetta kemur alls ekki fram í greininni.

Jeg fyrir mitt leyti álít, að sleppa mætti þessari setningu, en nefndin kom sjer saman um, að hafa hana og ákveða, að samþykkis þurfi að leita, ef samsætin eru haldin á opinberum veitingastöðum.

Þá fanst nefndinni rjett, að gera ákveðnari sektarákvæði, þannig, að lágmark sekta yrði ákveðið.

Þá er breyt.till. við 3. gr. í frv. frá Nd. stendur, að sektir geti fallið á fjelagsstjórnina og þjónustumenn og eftir atvikum neytendur sjálfa. Þetta virtist nefndinni óljóst, og væri það skilið eins strangt og orðin frekast leyfa, væri ákvæðið óþarflega strangt; mætti sem sje dæma þá alla, í stað þess að vanalega yrði að eins einn dæmdur, og þá vanalega veitingamaðurinn eða þá þjónustufólkið. Næðist ekki í neinn af þessum, þá gæti það komið til greina, að sekta neytendurna. Því vill nefndin, að „eða“ sje sett í stað „og“ á tveim stöðum í fyrstu málsgrein greinarinnar.

Einnig finst henni viðfeldara, að setja orðið „jafnvel“ í staðinn fyrir „eftir atvikum“.

Þá hygg jeg, að ekki sje meira um þetta að segja að sinni. Vænti jeg þess, að deildin samþykki breytingartillögurnar og frumv. í heild sinni, eins og nefndin leggur til.