03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

60. mál, vatnsveita í verslunarstöðum

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Ástæðan fyrir því, að við flutningsmennirnir höfum leyft okkur að koma fram með þetta frv. er sú, að Siglfirðingar hafa komið sér upp vatnsveitu og sent stjórnarráðinu reglugerð hennar til staðfestingar, en vegna þess að stjórnarráðið taldi sig ekki hafa vald til þess, að staðfesta reglugerðina, þá hefir það beint málinu til okkar þingmannanna. Í staðinn fyrir að semja sérstök lagaákvæði fyrir þessa einu vatnsveitu, þá höfum við álitið heppilegra að til væri almenn lög er heimiluðu stjórnarráðinu að staðfesta slíkar reglugerðir. Það er sjáanlega óþarft vafstur að þingið þurfi altaf að taka svona löguð mál til meðferðar í hvert skifti er vatnsveitu er komið á í löggiltum kauptúnum víðsvegar um land.

Í frv. hygg að sé flest það tekið fram, er til slíkra hluta þarf, og tel litla þörf á að nefnd verði sett í málið, þótt eg hins vegar hafi ekkert verulegt á móti því ef deildin telur það nauðsynlegt, en þá vildi eg mega vænta þess, að sú nefnd gæti sem fyrst afgreitt málið til deildarinnar, þar sem nú er svo áliðið þingtímans.