05.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

64. mál, forkaupsréttur landssjóðs

Skúli Thoroddsen:

Eg stend upp til þess að mæla á móti þessu frv., og leggja til að það verði felt.

Eins og kunnugt er, samþykti Alþingi 1905 lög um forkaupsrétt leiguliða, þar sem ákveðið er, að vilji einhver selja jörð, sem er í byggingu annars manns, skuli hann fyrst bjóða leiguliðanum hana til kaups, en síðan sveitarfélaginu, hafni leiguliðinn boðinu. Nú er hér enn farið fram á það, að ef jörðin hefir áður verið þjóðjörð, þá skuli landssjóður hafa forkaupsréttinn, ef hvorki ábúandinn né sveitarfélagið vill kaupa.

Eg hefði verið þingmanninum þakklátur hefði hann borið fram frv. þess efnis, að nema lögin um forkaupsrétt leiguliða og sveitarfélaga úr gildi, til þess að spara jarðeigendum vafningana, sem því eru samfara, enda tæpast hætt við því, að hann fengi eigi að sitja fyrir kaupunum, hvort sem væri, ef hann vildi eða væri þess megnugur, enda ættu og eigendur fasteigna — ekki síður en eigendur hvers munar sem er —að vera frjálsir að því, hverjum þeir vilja helzt selja eign sína.

Annars á eg bágt með að ímynda mér, að landssjóður fari nú alt í einu að ágirnast fasteignir, þar sein það hefir einmitt verið ríkjandi stefnan, að losa hann sem fyrst við jarðirnar, sem hann á.

Þetta frv. mundi og ef það yrði að lögum, leiða til þess, að maður, sem selja vill jörð sína, er í annara ábúð er, þyrfti, í viðbót við þá örðugleika sem nú eru á sölunni, ennfremur að bæta því á sig, að bíða ef til vill alt að 2 mánuðum eftir svari stjórnarráðsins, og allir sjá hve hentugt þetta er. eða hitt heldur, ef einhverjum liggur á peningum, auk ómaksins sem það bakar, sem einnig er peninga virði og er óþarft að fella jörðina á þennan hátt í verði.

Eg vil því leggja það til, að frumv. sé felt.