18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í C-deild Alþingistíðinda. (1005)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Ólafur Briem:

Eg á hér aðeins eina br.till. á þgskj. 439, Við 15. gr. 28, sem fer fram á það, að styrkurinn til Hannesar Þorsteinssonar, til að semja ævisögu lærðra manna íslenzkra, verði færður úr 2500 kr. hvort árið niður í 1500 kr. hvort árið, eða til vara 2500 kr. f. á.

Eg skal ekki leggja út í deilur um það, hvort þessi maður sé fær um að leysa verkið vel af hendi. En nær er mér að halda það, að upphaflega hafi þessi styrkur ekki verið veittur fyrir brýna þörf, eða eingöngu verksins vegna, heldur meðfram mannsins vegna, og að styrkurinn megi teljast til bitlinganna,, sem svo eru kallaðir. Eg vil leyfa mér að minna á það, að þessi fjárveiting var tekin upp í Ed. 1911. Það kom fram í nefndarálitinu þar og í framsögunni, að upphæðin væri miðuð við það, að maðurinn gæti varið öllum sínum kröftum óskiftum í þetta verk. Nú er það vitanlegt, að þessi maður hefir með höndum annað starf, sem gefur honum nálega 1000 kr. árlega, og kemur það í bág við það skilyrði, sem fjárveitingin var bundin, þótt ekki stæði það skilyrði í fjárlögunum. Er það því fyllilega í samræmi við tilætlun þingsins 1911, að styrkurinn sé færður niður í 1500 kr. Sama skoðun kom fram í fjárlaganefnd Nd. 1911, að hafa styrkinn 1500 kr., en féll, að líkindum af því, að menn höfðu það sama fyrir augum, sem sé að maðurinn gæti lagt krafta sína óskerta í starfið.

Þá kem eg að því atriði, sem mikilli deilu hefir valdið hér í dag, það er styrknum til unglingaskóla. Eg er þar alveg samþykkur háttv. þm. Dal. (B. J.), að það eigi betur við að tiltaka upphæðina í einu lagi fyrir alla unglingaskóla landsins, heldur en að þingið fari að hnitmiða niður styrk til hvera einstaks skóla. Aftur sé eg, að háttv. sami þm. hefir lagt til að lækka upphæðina úr 12800 kr. í 12000 kr., en það mun stafa af óaðgætni og mætti laga til 3. umr. Stjórnin hefir öll skilyrði langtum betri en þingið til þess að skifta styrknum réttlátlega niður. Fræðslumálastjórinn færihendur allar skýrslur skólanna og atendur betur að vígi til að athuga kenslu, nemendafjölda o.s.frv., heldur en vér þingm., sem ekki sjáum skýrslur, nema frá nokkurum skólum. því fer það svo, eins og vant er, að hver þingm. reynir að afla skólum þess kjördæmis, sem hann er þingmaður fyrir, sem mestra hlunninda. Þetta að tiltaka eina upphæð fyrir margar smáupphæðir, sem veittar eru í sama tilgangi, gæti komið til greina víðar í fjárlögunum. Það hefir viljað brenna við í fleiri málum, að þingið hefir til skaða verið að blanda sér inn í mál, sem það hefir engin skilyrði haft til að dæma um, í stað þess að fela það stjórninni, með þeim takmörkunum, sem þörf eru á.

Þá vil eg víkja að einu atriði viðvíkjandi kenslumálunum, sem lítið hefir verið athugað, en það er, hvort ekki gæti komið til álíta að lögbjóða skólagjald við suma skóla hér. Menn verða vel að gæta að því, að ókeypis kensla er mikill styrkur, sem allir njóta jafnt. Það væri íhugunarvert, hvort ekki ætti að breyta þessu fyrirkomulagi á þá leið, að þeir einir gætu orðið aðnjótandi gjafkenslu, sem til þess eru verðugir eða að einhverju leyti eiga lakara aðstöðu. Það liggur engin br.till. fyrir um þetta, en þetta er þó eftirtektarvert, ekki sízt að því er tekur til skólanna fyrir embættismannaefnin. Embættisleiðin er mjög girnileg fyrir unga menn, og er ekki ástæða til þess að laða menn eða jafnvel ginna inn á þá braut frekara en góðu hófi gegnir. Það er eðlilegt, að beztu mannsefnin sækist eftir að ganga þá braut, og við það tapar framleiðslan góðum kröftum. En framleiðslan held eg að hafi að minsta kosti alveg sama rétt á sér, og mér er þó nær að halda, að þar sé meiri þörf á góðum starfskröftum heldur en í embættisstéttinni, sem hefir alveg afmarkað svið, þar sem aftur í framleiðslu landsins þarf að brjóta nýjar brautir til þess að koma þjóðinni áleiðis. Eg held, að til þess séu vandfengnari kraftar og þær leiðir séu vandrataðri en embættisleiðin. Þrátt fyrir allar prédikanir um listir og vísindi, þá er framleiðslan undirstaða ekki einungis undir því, að hægt sé að styrkja listir og vísindi, heldur og hlýtur velmegun manna að skapa löngunina til þess. Þótt hægt sé að segja, að maðurinn geti ekki lifað af einu sama brauði, þá getur hann samt ekki lifað án þess.