18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í C-deild Alþingistíðinda. (1007)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Valtýr Guðmundsson:

Eg er svo heppinn, að eg á engar brtill. við frumv. nú. Þó skal eg leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir.

Eg er samþykkur háttv. 1. þingm. Skagf. (Ó. Br.) um það, að tími sé kominn til þess að lögleiða skólagjald hér. Eg hefi vikið að þessu áður hér á þingi í samhandi við tillögur, sem eg þá gerði um lækkun námsstyrks við latínuskólann, sem þá voru teknar til greina. Eg álít, að ganga eigi lengra. Það mun vera einsdæmi, að nokkurstaðar sé svo létt að nema sem hér. Hér á landi er veitt bæði ókeypis kensla og námsstyrkur við skólana. Afleiðingin er sú, að vér höfum eignast mentaðan öreigalýð, sem bæði verður skyldmennum og landinu til byrði. Þessir menn vekja óróa og byltingar í landinu, og ekki er það einsdæmi, að. ný embætti. hafi verið stofnuð handa slíkum mönnum, aðallega til þess að þeir gætu fengið eitthvað að lifa á. Hugsunarhátturinn er sá, að ef einhver unglingur þykir efnilegur að gáfnafari, er talið sjálfsagt að senda hann í Latínuskólann, eða Mentaskólann, svo sem hann nú er kallaður. Þetta leiðir til þess, að góðir kraftar hafa dregist frá öðru, sem útheimtir alveg eina miklar gáfur. Þetta álít eg mjög óhollan hugsunarhátt. Og þess vegna álít eg, að vera ætti skólagjald, en þó nokkur frípláss handa efnilegum fáæklingum. Eg vil skjóta því til stjórnararinnar og fjárlaganefndarinnar, að taka þetta atriði til íhugunar.

Í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar er hagt til að hækka styrkinn til stúdenta við háskólann, og í athugasemdunum aftan við frumvarpið segir stjórnin eitthvað í þá átt, að tillagan sé gerð til þess að verðlauna menn fyrir að sækja ekki til Kaupmannahafnaháskólans, þar sem Garðsstyrkurinn hefir nú nýlega verið hækkaður. Það er rétt, að Garðsstyrkurinn hefir verið hækkaður, en ekki meira en því nemur; sem allar lífsnauðsynjar hafa hækkað í verði á síðari árum, svo að Garðsstyrkurinn er engu hærri hlutfallslega en áður. Það er eðlilegt, að unga menn langi til að skoða sig um og komast þangað sem betri mentunarskilyrði eru fyrir hendi. Það er líka nauðsynlegt, og þarf ekki annað en að líta á sögu landsins til þess að komast að raun um, að þeir menn, sem orðið hafa þjóð vorri að mestu liði, hafa flestir farið utan og framast. Þetta er ekki heldur neitt einkennilegt fyrir oss Íslendinga. Það er svo með öllum þjóðum. Hver þjóð finnur til þess, að hún er sér ekki einhlít og þarf að læra það af annari, sem hún hefir ekki sjálf. Kínverjar eru gott dæmi upp á þjóð, sem staðið hefir í stað vegna þess, að hún hefir þvergirt fyrir alla utan að komandi menningarstrauma. Japanar aftur á móti eru gott dæmi upp á ið gagnstæða. Það er hart, ef á að halda mönnum frá að ná fullkominni mentun þar sem það er hægt, auk þess sem háskóli vor er svo ófullkominn, að margir þeir, sem vilja afla sér mentunar í ýmsum greinum, eru beint neyddir til að sækja hana til annara landa.

Þá skal eg snúa mér að tillögum hv. þm. Dal (B. J.), um styrkinn til unglingaskólanna. Hann þykst að eins leggja það til, að draga styrkinn saman og fela stjórnarráðinu úthlutun hans. En hann gerir meira í meðförum hans hefir styrkurinn lækkað um 800 kr.

Sama háttv. þingmanni þótti ástæða til að lækka Styrkinn til unglingaskólanna í kaupstöðunum. Ekki get eg fallist á það. Eg verð að líta svo á, að unglingaskólarnir á Ísafirði og Seyðisfirði séu fjórðungsskólar og samsvari gagnfræðaskólunum í Reykjavík og Akureyri. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir þurfi meiri styrk, vegna þess, að þeir eru ekki fyrir kaupstaðina eina og aðsóknin að þeim verður því miklu meiri, þar sem hægra er að sækja til þeirra en uppi í sveit. Eg get ekki séð, að ástæða sé til þess að láta úthlutun til þessara skóla liggja fremur undir stjórninni en hafa þá sérstaka á fjárlögunum, eina og nú er. Annars skal eg játa, að þetta skiftir ekki miklu máli í sjálfu sér.

Eg get ekki álitið annað, en að nefndinni hafi orðið nokkuð mislagðar hendur, að því er listamennina snertir.

Það er sérstaklega ein kona, sem háttv. 1. þm. Eyf. hefir minst á, sem verður beitt mikilli rangsleitni, ef henni verður neitað um lítilfjörlegan styrk, jafnframt og öðrum manni er veittur styrkur til ins sama, og er hún þó engu síður, ef ekki fremur góðs makleg en hann. Hún er bæði miklu lengra komin og hefir in beztu meðmæli frá kennurum sínum, en hann hefir ekki sýnt sig mikið enn þá hafði jafnvel ekki náð upptökuprófi á listaháskólanum seinast. Eg get ekki séð neina ástæðu til að hafa hana útundan, nema kannske þá, að hún er í pilsum. Fjárlaganefndin hefir líka ráðist á aðra stúlku, Laufey Valdimarsdóttur, og klipið af henni 200 kr., vegna þess að hún er kvenmaður, er hún líka beitt misrétti við úthlutun Garðstyrksins í Khöfn og fær engan styrk þar. Eg vona, að háttv. deild leiðrétti þetta, því að það er misrétti.

Þá skal eg ekki fara út í fleira, nema viðvíkjandi skáldunum geta þess, að eg felst alveg á tillögur nefndarinnar, sem lúta að því, að í framtíðinni muni það heppilegra, að veita eina fúlgu til skáldanna, sem stjórninni svo sé falið að skifta á milli þeirra eftir verðleikum í samráði við skynsama menn, sem vit hafa á. Hitt þykir mér ekki heppilegt, að veita þeim alla upphæðina fyrra árið. Bæði er það óhentugt fyrir landstjórnina að þurfa að borga út hærri upphæð fyrra árið og líka óheppilegt fyrir skáldin sjálf. Því er nú einu sinni svo farið, að þau hafa aldrei þótt »ökónómar«, og er hætt við að þeir eti upp á góðu árunum, en gleymi að byrgja sig upp til inna lakari. Þessu vildi eg skjóta til nefndarinnar, og mætti athuga það við 3. umr. Hitt er ekki nema sjálfsagt, að heimta það skilyrði fyrir styrknum, að skáldin sýni eitthvað eftir sig. Það er hart að vera að styrkja menn, sem ekkert sést eftir, kannske árum saman. Vona eg að athugasemd lútandi að þessu verði sett við liðinn.

Þá hefi eg ekki meira að athuga við þessar greinir að sinni.