18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í C-deild Alþingistíðinda. (1008)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Tryggvi Bjarnason:

Það er búið að tala talsvert um skáld og listamenn, svo að eg þarf ekki að vera langorður um það; læt mér nægja að geta þess, að eg felli mig að öllu leyti við tillögur fjárlaganefndarinnar þar að lútandi.

Eg ætla að eins að minnast á eina breytingartillögu frá nefndinni. Hún fer fram á, að Jóni Ólafssyni rithöfundi sé veittar árlega 3000 kr. til þess að halda áfram að vinna að íslenzkri orðabók. Í ráði mun, að henni verði ekki fyr lokið en eftir 8 ár. Eg ætla ekki að neita því, að mikið sé gefandi fyrir að fá góða íslenzka orðabók með íslenzkum þýðingum, en mér virðist hún vera orðin nokkuð dýr, ef henni verður ekki lokið fyr en að 8 árum liðnum. Þessi maður hefir á líðandi fjárhagstímabili 1500 kr. árlega, og ef hann á á næstu 8 árum að hafa 3000 kr. á ári, þá kemur bókin til að kosta að minsta kosti 27000 kr. alls. Og það er ekki hægt að segja með neinni vissu, að starfinu verði lokið á tilteknum tíma. Eg geri ráð fyrir að hann á þessum 2 árum hafi varið hálfum starfskröftum sínum til þessa verks, þar sem ætlast er til að hann hafi helmingi hærra kaup nú og verji til þessa öllum starfskröftum sínum, og árangurinn er 1 hefti með 1. bókstafnum í stafrófinu. Ef hver stafur ætti að kosta eitthvað álíka, þá er eg hræddur um að bókin yrði nokkuð dýr á endanum.

Það virðist óneitanlega talsvert varhugavert að kasta tugum þúsunda út í óvissu. Nefndin hefir ekki sett nein akilyrði um það, hversu miklu hann eigi að afkasta árlega. Eina skilyrðið, sem sett er, er það, að hann megi ekki hafa önnur launuð störf á hendi; eg hygg að hægt sé að fara nærri um það, hve miklu hann muni afkasta. Og eftir því sem út er komið, eru öll líkindi til að bókin muni kosta alt að 90000 kr., ef hver stafur kostar líkt og sá fyrsti. Eg býst við að þessu verði svarað svo, að það komi ekki til nokkurra mála, en eg er á nokkuð annari skoðun þar. Það væri ilt ef bókinni yrði ekki lokið á 8 árum — sem engin líkindi eru til — því að það er verra að snúa aftur þá en að gera það strax.

Annars datt mér í hug, að það mundi eiga við það sem háttv. 1, þm. Skgf. (Ól. Br.) sagði, þegar hann var að tala um styrkinn til Hannesar Þorsteinssonar, að það væri venjan að styrkirnir væru fyrst og fremst veittir vegna mannanna sjálfra. Þar talar hann af reynslu.

Eg greiði atkvæði móti þessari br.till., því eg vil ekki að landinu sé bökuð útgjöld, sem minst nema 27000 kr. og líklega meira, ef til vill miklu meira.