18.08.1913
Neðri deild: 37. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í C-deild Alþingistíðinda. (1009)

1. mál, fjárlög 1914 og 1915

Þorleifur Jónsson:

Eg er svo heppinn að eiga enga breytingartillögu við þennan kafla, en það er ein br.till. frá háttv. nefnd, sem mig langar til að minnast á. Það hefir verið hljótt um hana og eg man ekki til að háttv. framsögum. (P.J.) hafi minst á hana. Hún fer fram á 20.000 kr. fjárveitingu til aðgerðar á dómkirkjunni. Þetta er stór upphæð og því ekki óeðlilegt að það sé athugað, hvort þörf sé á henni eða ekki, og hvort þessi kirkja eigi að halda áfram að vera stöðugur baggi á landinu. Í nefndarálitinu stendur, að kirkjan sé í hættu og þurfi bráðra og mikilla aðgerða. Það getur nú verið að þetta sé rétt, því þetta er gamalt hús. En eg vil benda á, að sú stefna er ríkjandi hér í landi, að koma kirkjunum sem mest í hendur söfnuðunum. Það er ekki nema eðlilegt, þar sem það einnig er orðin ráðandi stefna í kirkjulöggjöfinni, að söfnuðirnir ráði sem mestu um sin mál. Mér er ókunnugt um, hvort nokkuð hefir verið reynt til að koma þessari kirkju í hendur safnaðarins. En það væri ekki óeðlilegt, að þessi söfnuður, sem er stærsti söfnuður á landinu, tæki að sér kirkjuna, og hefði eg þá ekkert á móti að landssjóður legði nokkuð ríflega til hennar, og væri svo laus við hana. Eg skil heldur ekki, hvaða ástæðu söfnuðurinn hefði til að kveinka sér við því. Um þessi atriði langar mig til að heyra eitthvað meira. Svo mikið er víst, að þessi kirkja hefir alt af verið talsverður baggi á landinu. Í landsreikningunum sjást ekki annað en útgjöld til hennar; en þar sem talað er um tekjur af kirkjum, þar er Reykjvíkurdómkirkja tilfærð og eyða fyrir aftan þar sem tekjurnar eiga að standa. Mér finst það óneitanlega talsvert ranglæti, að Reykvíkingar þurfi ekki annað en að rétta út hendina í landasjóðinn til hvers sem þá lystir, þar sem aðrir landshlutar fá engan eyri nema með miklum eftirtölum. Eg get ekki séð, hvers vegna landssjóður eigi að láta sér annara um dómkirkjuna en aðrar kirkjur, jafnvel þó prédikað sé í henni við við alþingissetningu. Það mætti líka borga sérstaklega fyrir það. Eg vildi því mælast til, að háttv. nefnd léti í té skýrslu um efnahag kirkjunnar, og hvort ekki mætti reyna að koma henni í hendur safnaðarins eftir að landssjóður hefir kostað þessa aðgerð á henni. 1911 var kirkjan máluð, og mun það hafa kostað mikla peninga, sem kastað hefir verið í sjóinn, þar sem nú á að umturna öllu aftur. Eg er ekki beint með þessu að leggja á móti því að eitthvað sé veitt til aðgerða á kirkjunni, ef hún er í þeirri hættu, sem af er látið. En hitt vil eg að sé athugað, hvort þessum stóra bagga geti svo ekki að öllu leyti verið létt að landssjóðnum viðvíkjandi fjárveitingunni til lista og vísindamanna, þá hefi eg þá skoðun, sem líka hefir verið haldið fram af öðrum, að stjórninni væri veitt eitthvert fé til útbýtinga handa rithöfundum og listamönnum vorum. Það er ekki hægt að neita því, þar sem engir opinberir sjóðir eru til styrktar slíku hér á. landi, að ekki er nema eðlilegt, að landssjóður leggi þá eitthvað af mörkum — og þá helzt með einni ákveðinni upphæð, því að það er leiðinlegt að þurfa ár eftir ár að standa hér og rífast um og metast á um ágætismenn þjóðarinnar. Það er ekki hægt að neita því , að þótt almenningur eigi kannske ekki að leggja mikið fé til þessara hluta, þá fagnar alþýðan þó alt af góðri bók, sem út kemur. Menn rífast um að ná í kvæðabækurnar eða skáldsögurnar, og eg efast ekki um, að þær hafi sáð mörgum góðum frækornum, sem hafa fest rætur, sérstaklega hjá ungu kynalóðinni. Góðar bækur með hollum lífsskoðunum hjálpa til að ala menn upp og gera þá að nýtari mönnum og færari í lífsbaráttunni.

En hvað sem öllu þessu líður, verður að gæta hófs í slíkum fjárveitingum. Við þurfum fé til svo margs og marga sem til nytsemdar horfir, en höfum úr svo litlu að spila, að við verðum alstaðar að slá af, verðum að láta margt bráðnauðsynlegt sitja á hakanum.

Í þessu öllu verður að gæta hófs á báða bóga.